Þau sem létust í Manchester

Einnar mínútu þögn var haldin í Bretlandi í morgun til …
Einnar mínútu þögn var haldin í Bretlandi í morgun til minningar um fórnarlömb árásarinnar. Þessi mynd var tekin í Manchester. AFP

Gefin hafa verið upp nöfn 21 fórnarlambs af þeim 22 sem fórust í hryðjuverkaárásinni í Manchester Arena á mánudagskvöld. Flestir þeirra sem dóu voru unglingar sem voru á tónleikum með átrúnaðargoði sínu Ariana Grande. Einnig létust einhverjir foreldrar sem ætluðu að ná í börnin sín. Átta ára stúlka var einnig á meðal fórnarlamba.

Mínútuþögn var haldin í Bretlandi í morgun til að minnast fórnarlambanna. 

Þessi kona minntist fórnarlambanna í morgun í einnar mínútu þögn …
Þessi kona minntist fórnarlambanna í morgun í einnar mínútu þögn sem var haldin. AFP

Hér má sjá lista yfir fórnarlömbin en nánar er greint frá þeim sem létust á BBC

Philip Tron og Courtney Boyle

Philip Tron, 32 ára, og stjúpdóttir hans Courtney Boyle, 19 ára létust í árásinni. „Ótrúlega, yndislega og fallega dóttir mín. Þú varst mín styrkasta stoð og ég var svo stolt af öllu sem þú afrekaðir,“ sagði í yfirlýsingu frá móður hennar.

„Minn yndislegi og klikkaði Philip, veröldin var svo dásamleg vegna þín og núna eru báðir englarnir mínir á flugi á himninum.“

Elaine McIver

Lögreglukonan var ekki á vakt á tónleikunum. Hún var stödd þar ásamt manni sínum Paul, sem særðist alvarlega, og tveimur börnum þeirra, sem einnig særðust.

Wendy Fawell

Fimmtug móðir frá frá Otley í Vestur-Yorkskíri. Hafði ferðast á tónleikana með vinkonu sinni, Caroline, og börnum þeirra. Caroline særðist alvarlega.

„Mamma var yndisleg kona. Hennar verður sárt saknað,“ sagði Adam Fawell, sonur hennar.

Eilidh MacLeod

Hin fjórtán ára Macleod var á tónleikunum með vini sínum. „Engin orð geta lýst því hvernig okkur líður eftir að hafa misst elskuna okkar Eilidh,“ sögðu foreldrar hennar í yfirlýsingu. Eilidh var mjög lífleg og skemmtileg. Hún elskaði alls konar tónlist, hvort sem það var Ariana eða að spila á sekkjapípur með sekkjapípuhljómsveit sinni,“ sögðu foreldrar hennar.

Eftir að ættingjar hennar og vinir höfðu leitað að henni eftir tónleikana greindi fjölskylda hennar frá því að hún væri látin. 

Chloe Rutherford og Liam Curry

„Óaðskiljanlegt“ ungt par sem fór saman á tónleikana. Rutheford var 17 ára og Curry 19 ára.

Michelle Kiss

Lýst sem „elskulegri eiginkonu Tony og móður Dylan, Elliot og Millie“.

Sorrell Leczkowski

Talin hafa farið með fjölskyldu sinni í Manchester-höllina til að sækja systur sína. Móðir hennar og amma eru alvarlega slasaðar. Systir hennar, sem var á tónleikunum, slasaðist ekki.

Saffie Roussos

Hin átta ára Saffie Roussos var „einfaldlega gullfalleg stelpa í öllum skilningi þess orðs,“ sagði Chris Upton, yfirkennari í grunnskólanum Tarleton. „Allir elskuðu hana og hennar verður minnst fyrir hlýju sína og góðvild.“

Olivia Campbell

Hin fimmtán ára Campell var „dýrmæt, stórkostleg stúlka,“ sagði móðir hennar.

Martyn Hett

Almannatengslafulltrúinn Hett, 29 ára, fór á tónleikana með vini sínum Stuart Aspinall.

Nell Jones

Grunnskólaneminn Nell Jones, 14 ára, lést í árásinni.

Alison Howe og Lisa Lees

Vinkonurnar Alison Howe, 45 ára, og Lisa Lees, 47 ára, létust er þær ætlaðu að ná í dætur sínar á tónleikana. Dæturnar, sem eru 15 ára, sluppu ómeiddar.

Jane Tweddle-Taylor

Tweddle-Taylor var 51 árs frá Blackpool. Hún dó er hún ætlaði með vinkonu sinni til að sækja dóttur hennar.

Angelika og Marcin Klis

Marcin og Angelika Klis voru bæði frá Póllandi en bjuggu í York. Þau dóu er þau ætluðu að sækja dóttur sína á tónleikana.

Kelly Brewster

Brewster, 32 ára, lést þegar hún veitti litlu frænku sinni skjól frá sprengingunni. Frændi Brewster sagði að hún hefði „með mikilli hetjudáð varið“ 11 ára frænku sína frá sprengingunni.

John Atkinson

Atkinson, 28 ára, er lýst af vinum sem „sönnum heiðursmanni“.

Georgina Callander

Talið er að neminn Georgina Callander hafi verið 18 ára. Hún hafði þegar hitt söngkonuna Grande tveimur árum fyrir tónleikana.

Hún setti á Instagram-síðu sína mynd af sér með söngkonunni. Fyrir tónleikana á mánudag skrifaði hún á síðu sína: „Hlakka svo mikið til að sjá þig á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert