Vinnubrögð verði endurskoðuð

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á kosningafundi í Bretlandi í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á kosningafundi í Bretlandi í dag. AFP

Breska leyniþjónustan MI5 mun endurskoða vinnubrögð sín í kjölfar hryðjuverksins í London. Þetta sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í kjölfar frétta af því að leyniþjónustan vissi af tveimur af þeim þremur árásarmönnum sem frömdu hryðjuverkið.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að May hafi hins vegar ekki tekið eins sterkt til orða og Boris Johnson utanríkisráðherra sem hafi sagt að leyniþjónustan þyrfti að svara ýmsum spurningum í kjölfar hryðjuverksins sem kostaði sjö lífið.

May sagðist í samtali við sjónvarpsstöðina Sky skilja áhyggjur fólks af því að leyniþjónustunni hafi ekki tekist að afstýra hryðjuverkinu í London. Hún sagðist eiga von á því í farið yrði ofan í saumana á því hvers vegna árásarmennirnir hafi ekki verið stöðvaðir.

Tilkynnt hafði verið um einn árásarmanninn, hinn 27 ára gamla Khuram Butt, í gegnum sérstakan síma í tengslum við hryðjuverkavarnir árið 2015. Annar þeirra, Youssef Zagba, var stöðvaður árið eftir á Ítalíu þar sem hann var á leið til Sýrlands.

„Ég skil áhyggjur fólks fyllilega. MI5 og lögreglan hafa þegar sagt að farið verði yfir með hvaða hætti hafi verið tekið á [hryðjuverkinu í] Manchester og ég geri ráð fyrir að það sama verði gert í tengslum við London,“ sagði forsætisráðherrann í samtali við Sky.

Veit þyrfti lögreglunni og leyniþjónustunni meiri völd til þess að berjast gegn hryðjuverkum og öfgahyggju þegar þess gerðist þörf. Þar á meðal á netinu. Ennfremur til þess að hægt yrði að uppræta ofgahyggju innan landamæra Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert