Ísraelar byggja á landi Palestínumanna

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Varnarmálaráðherra Ísraels, Avigdor Lieberman, segir ríkisstjórn Ísraels hafa á þessu ári sett fram áætlun um byggingu flestra íbúða í landnemabyggðum á landi Palestínumanna síðan árið 1992.

Þetta var haft eftir Lieberman á sunnudag en ríkisstjórn Benjamins Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, mætir þrýstingi frá leiðtogum hópa sem vilja fleiri landnemabyggðir á landi Palestínumanna. Þessir hópar hafa mikil ítök á hægri væng ríkisstjórnar Ísraels, en hún samanstendur af fimm flokkum sem í heild telja 61 þingmann af 120 á ísraelska þinginu.

Fréttastofa Al Jazzera greinir frá því að Lieberman hafi tilkynnt blaðamönnum og ráðherrum á fundi ríkisstjórnar að á þessu ári sé staðfest að byggja eigi allt að 8.345 íbúðir á Vesturbakkanum og þar af fari 3.066 íbúðir tafarlaust í byggingu.

Trump hyggst koma á friði

Donald Trump Bandaríkjaforseti heimsótti Ísrael og Palestínu í síðasta mánuði þar sem hann hitti bæði Netanyahu og Mahmoud Abbas forseta Palestínu. Trump segist vinna að því að koma á hinum „fullkomna samning“ í deilum ríkjanna. Hann hefur þó ekki gefið upp neinar vísbendingar um það hvernig hann hyggst koma á viðræðum milli ríkjanna.

Trump hefur óskað eftir því við Netanyahu að Ísraelar bíði með frekari útþenslu landnema byggða á meðan hann finni leiðir til þess að koma á viðræðum. Það má því segja að Netanyahu sé í erfiðri stöðu þar sem þrýstingur er innan Ísrael að gera hið gagnstæða.

Landnemabyggðir Ísraela ólöglegar

Samtökin Peace Now sem fylgjast með framkvæmdum í landnemabyggðum segja tölu íbúða sem samþykktar hafa verið á fyrri helming þessa árs nánast þrefalt hærri en allt síðasta ár. Samtökin sögðust þó ekki geta staðfest þau orð Lieberman að þetta sé mesti fjöldi íbúða frá 1992.

Landnemabyggðir Ísraela á landi Palestínumanna eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum og hafa verið eitt af aðalágreiningsefnum í deilum ríkjanna til þessa. Meira en 600.000 ísraelskir landnemar búa nú á landi Palestínumanna á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem.

Donald Trump hyggst á koma á hinum „fullkomna samningi“ milli …
Donald Trump hyggst á koma á hinum „fullkomna samningi“ milli Ísraels og Palestínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert