Pence ræður sér lögmann

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, hefur ráðið lögmann vegna fyrirspurna frá sérstökum saksóknara sem rannsakar möguleg tengsl forsetaframboðs Donalds Trump Bandaríkjaforseta við stjórnvöld í Rússlandi. Fréttaveitan AFP greinir frá þessu.

Fram kemur í fréttinni að Pence hafi ráðið lögmanninn Richard Cullen sem er fyrrverandi saksóknari frá Virginíu-ríki og kom meðal annars að Watergate-málinu á áttunda áratug síðustu aldar sem leiddi til afsagnar Richards Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseta.

Trump hafði áður ráðið sér lögmann vegna málsins og fréttir herma að ýmsir starfsmenn Hvíta hússins séu að gera það sama til þess að undirbúa sig ef fyrirspurnir berast frá sérstaka saksóknaranum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert