Rannsaka hvers vegna flóðbylgja skall á þorpið

Mikið tjón varð þegar flóðbylgjan skall á land.
Mikið tjón varð þegar flóðbylgjan skall á land. AFP

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvað olli því að flóðbylgja skall á þorpinu Nuugaatsiaq á Grænlandi á laugardagskvöld að sögn jarðvísindamanns hjá rannsóknastofnun jarðfræði Danmerkur og Grænlands (GEUS). 

Þetta kemur fram á vef grænlenska ríkisútvarpsins. Fjögurra er saknað eftir að flóðbylgjan skall á þorpinu og hreif með sér ellefu hús. Þrír olíutankar eru á meðal þess sem hefur sést fljótandi í hafinu.

Mælitæki greindu bylgjur sem minna á jarðskjálfta en þær gefa einnig til kynna að stór skriða úr fjalli hafi fallið. Þetta segir Peter Voss hjá GEUS. Hins vegar er þörf á frekari gögnum, auk vitnisburðar sjónarvotta, til að staðfesta hvað gerðist í raun og veru. 

Enn fremur var talið hugsanlegt að skriða hefði fallið neðansjávar en aftur á móti er erfiðara að greina slíkt. 

Það liggur hins vegar fyrir að fyrstu mælingar um óróa urðu klukkan 21.40 að staðartíma (klukkan 23.40 að íslenskum tíma) í Nuugaatsiaq. Um átta mínútum síðar skall flóðbylgjan á þorpinu. 

GEUS íhugar nú að senda vísindamenn til Grænlands til að rannsaka atvikið betur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert