Fundu 400 manns undir blokkinni

Gríðarleg uppbygging á fjölbýlishúsum og skýjakljúfum hefur átt sér stað …
Gríðarleg uppbygging á fjölbýlishúsum og skýjakljúfum hefur átt sér stað í Kína á undanförnum árum. AFP

Undir fjölbýlishúsi í Peking í Kína fundust 400 manns sem búa þar í gluggalausu neðanjarðarbyrgi með aðeins einn neyðarútgang. Talið er að ein milljón manns í Peking búi í neðanjarðarbyrgjum sem voru byggð á áttunda og níunda áratugunum og kallast fólkið shuzu, eða rottufólkið.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að fólkið hefði fundist undir fjölbýlishúsi í Julong Gardens sem er í norðurhluta borgarinnar og þykir fínt hverfi. Grunsemdir hefðu vaknað hjá íbúunum þegar þeir sáu fleiri og fleiri ókunnug andlit í blokkinni og um síðir fundust dyr að byrginu í kjallaranum. 

Rýminu var skipulega skipt, þar mátti finna svefnherbergi, eldhús og jafnvel reykingaherbergi. Íbúar byrgisins eru flestir farandverkamenn sem leita þangað vegna síhækkandi leiguverðs í höfuðborginni. 

Áður hvöttu yfirvöld fólk til að nýta auðu neðanjarðarbyrgin en á undanförnum árum hefur orðið viðsnúningur á stefnunni eftir að rýmin fóru að fyllast og öryggi fólksins varð áhyggjuefni. Fyrir um tveimur árum hófst átak þar sem meira en 120 þúsund shuzu var rekið á dyr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert