Dauðdaginn slys eða hryðjuverk?

Frá uppgreftrinum.
Frá uppgreftrinum. Ljósmynd/Twitter

Líkamsleifar sonar fyrrverandi forseta Argentínu, Carlos Menem, hafa verið grafnar upp. 22 ár eru síðan hann lét lífið en því hefur ávallt verið haldið opinberlega fram að þyrla sem hann flaug hafi brotlent.

Dómari fyrirskipaði að líkið yrði grafið upp en það er hluti af nýrri rannsókn þar sem skoðað verður hvers vegna sonurinn Carlitos lét lífið. Móðir hans, Zulema Yoma, fullyrðir að sonur hennar sé fórnarlamb hryðjuverkaárásar.

Hún heldur því fram að Carlitos hafi verið skotinn í höfuðið og skipt hafi verið um líkamsleifar í gröfinni til að fela sönnunargögnin af skotsárinu. Carlitos var 26 ára gamall þegar hann lést.

Réttarfræðingar munu framkvæma DNA-prófanir á líkamsleifunum sem grafnar voru upp í gærmorgun. 

Carlos Menem hélt því fram í mörg ár að dauði sonar hans hefði verið slys. Hann skipti hins vegar um skoðun fyrir nokkrum árum síðan og telur nú að Hezbollah-samtökin beri ábyrgð á dauða Carlitosar.

Hezbollah-samtökin voru sökuð um að hafa sprengt sprengju í gyðingahverfi í Buenos Aires árið 1994 en 85 létu þá lílfið. Argentínskir dómstólar sökuðu Írani um að skipuleggja og fjármagna sprenginguna og Hezbollah-samtökin um sjálfa framkvæmdina.

Menem segir að Hezbollah hafi viljað hræða hann til að hætta rannsókn á sprengingunni með því að myrða son hans.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert