Hæsta bygging LA tekin í notkun

Wilshire Grand Tower er hæsta bygging Los Angeles.
Wilshire Grand Tower er hæsta bygging Los Angeles. AFP

Hæsta bygging vesturstrandar Bandaríkjanna hefur formlega verið tekin í notkun, en það er Wilshire Grand Centre-turninn í Los Angeles. Byggingin er 73 hæðir og 335 metrar á hæð.

Turn US Bank hefur verið hæsta bygging borgarinnar frá árinu 1989, en hann er 24 metrum lægri en Wilshire Grand Centre turninn.

Í byggingunni má finna verslunarmiðstöð, hótel og bar sem býður upp á yfir 2.000 tegundir af víni svo eitthvað sé nefnt. Hótelið telur 889 herbergi.

Bygging á turninum hófst árið 2014. Turninn er þó ekki nálægt því að vera hæsti turn í heimi, en Burj Khalifa í Dubai er hæsta bygging heims eða 828 metrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert