Skildi börnin eftir í steikjandi hita

AFP

Bandarísk kona á þrítugsaldri á yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa valdið dauða tveggja barna sinna í síðasta mánuði með því að skilja þau eftir ein í lokaðri bifreið í steikjandi hita. Konan, Cynthia Marie Randolph, hefur viðurkennt að hafa lokað börnin inni til þess að kenna tveggja ára dóttur sinni lexíu eftir að stúlkan vildi ekki yfirgefa bifreiðina.

Með dótturinni í bifreiðinni var 16 mánaða gamall bróðir hennar, Cavanaugh. Börnin voru úrskurðuð látin í kjölfarið en lofthitinn utandyra fór upp í 35,5 gráður. Atburðurinn átti sér stað fyrir utan heimili þeirra. Randolph hélt því fyrst fram að börnin hefðu sjálf farið inn í bifreiðina og læst sig inni í henni. Síðan kom hún með nokkrar aðrar útgáfur í kjölfarið.

Randolph viðurkenndi loks að hafa komið að börnunum að leik í bifreiðinni og þegar stúlkan hafi neitað að yfirgefa bifreiðina hafi hún lokað bifreiðinni til þess að kenna henni lexíu. Hún hafi gert ráð fyrir því að dóttir sín gæti komið sér og bróður sínum út úr bifreiðinni þegar hún væri reiðubúin til þess. Randolph fór síðan inn í húsið, reykti hass og sofnaði.

Börnin voru í bifreiðinni í 2-3 klukkustundir. Ein útgáfan sem hún sagði lögreglunni var á þá leið að hún hefðu þurft að brjóta glugga á bifreiðinni til þess að bjarga börnunum en viðurkenndi síðar að hafa gert það eftir á til þess að villa um fyrir lögreglunni. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert