Fjórir ungir menn hurfu sporlaust

Mark Sturgis, Tom Meo, Dean Finocchiaro og Jimi Tara Patrick …
Mark Sturgis, Tom Meo, Dean Finocchiaro og Jimi Tara Patrick hurfu allir í sömu vikunni. Skjáskot/CBS Philadelphia

Umfangsmikil rannsókn er hafin í einni auðugustu sýslu Pennsylvaníu í kjölfar hvarfs fjögurra ungra manna. Lögregluyfirvöld, með alríkislögregluna í broddi fylkingar, einbeita sér nú að leit við búgarð í Bucks-sýslu sem er um 20 kílómetra fyrir utan Fíladelfíu.

Saksóknari í sýslunni sagði á blaðamannafundi í gær að grunur leiki á að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Hann segir eina vísbendinguna „mjög heita“.

Málið hefur allt vakið mikinn óhug en sá fyrsti til að hverfa var hinn nítján ára gamli Jimi Tara Patrick. Hann sást síðast á miðvikudag. Á föstudag hurfu svo þrír ungir menn á aldrinum 18-22 ára, þeir Mark Sturgis, Tom Meo og Dean Finocchiaro. Talið er að fjórmenningarnir þekkist. Tveir þeirra, Sturgis og Meo, unnu t.d. á sama stað. 

Sturgis sást síðast við heimili sitt á föstudagskvöld. Þá var hann á leið í heimsókn til vinar síns, Meo. Þetta segir Mark Potash, faðir Sturgis, í samtali við Philadelphia Inquirer. Er hann hafði ekki skilað sér heim á laugardagsmorgun var farið að óttast um hann. „Ég hélt að hann hefði kannski fengið sér í glas og sofið annars staðar en heima hjá sér,“ segir Potash í viðtalinu í the Inquirer. „Það var það sem ég vonaði.“

Þegar reynt var að hringja í farsíma þeirra Sturgis og Meo reyndist vera slökkt á þeim. Síðdegis á laugardag hafði Potash samband við lögregluna. 

Finocchario er sameiginlegur vinur Sturgis og Meo. Hann sást einnig síðast á föstudagskvöld. 

Í kjölfar vísbendingar sem barst lögreglunni var hafin leit í gær á stórum búgarði við bæinn Solebury. Lögreglumenn leituðu m.a. með málmleitartækjum á landareigninni. Í frétt New York Times segir að farsími Finoccharios hafi síðast gefið frá sér merki á þessum slóðum. 

Ungur maður handtekinn

Í gær handtók lögreglan tvítugan mann, Cosmo DiNardo. Foreldrar hans eiga búgarðinn sem leitin beinist nú að. Ekki er vitað hvort handtakan tengist beinlínis hvarfi fjórmenninganna en DiNardo var handtekinn í febrúar vegna brota á vopnalögum.

Í gögnum sem tengjast fyrri handtöku DiNardo kemur fram að hann hafi glímt við geðræn veikindi og hafi um tíma farið sjálfviljugur í meðferð á sjúkrahúsi við þeim.

Lögreglan segir að leitin á búgarðinum sé erfið þar sem svæðið sé stórt. Hún sé eins og að leita að nál í heystakki. Hins vegar sé lögreglan vel búin til leitarinnar. Talið er að hún muni standa í nokkra daga. 

Í frétt Washington Post segir að bíll Meo hafi fundist í bílskúr á svæðinu. Saksóknarinn sem fer með málið sagðist ekki geta svarað því hvort mennirnir fjórir séu enn á lífi. „Við vonum og biðjum fyrir því að svo sé.“

Ættingjar ungu mannanna halda sig við leitarsvæðið og bíða frekari upplýsinga frá lögreglunni. „Núna, þegar klukkustundirnar líða lítur þetta sífellt út fyrir að vera grimmilegra,“ segir faðir Sturgis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert