65 handteknir fyrir glæpastarfsemi með hrossakjöt

Við húsleit í sláturhúsum og öðrum húsakynnum á snærum glæpasamtakanna …
Við húsleit í sláturhúsum og öðrum húsakynnum á snærum glæpasamtakanna voru tekin sýni úr kjötinu. Ljósmynd/Europol

Lögreglan á Spáni í samstarfi við Europol hefur leyst upp net skipulagðrar glæpastarfsemi í viðskiptum með hrossakjöt í Evrópu sem stóðst ekki kröfur til manneldis. Að aðgerðinni komu yfirvöld í Belgíu, Frakklandi, Ítalíu, Portúgal, Rúmeníu, Sviss og Bretlandi.

Alls voru 65 einstaklingar handteknir á Spáni og hafa þeir verið ákærðir fyrir víðtæk brot á borð við illa meðferð dýra, skjalafölsun, að standa í vegi fyrir réttlætinu, glæpi gegn almannaheilbrigði, peningaþvætti og fyrir að taka þátt í skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Europol.

Umfangsmikil rannsókn síðan 2013

Árið 2013 komust írsk yfirvöld á snoðir um „nautaborgara“ sem innihéldu hrossakjöt. Sú uppgötvun markaði upphaf umfangsmikillar rannsóknar á uppruna kjötsins sem innihélt til að mynda bólgueyðandi lyfið phenylbutazone og kjötið því ekki hæft til manneldis.

Kjötframleiðendur og ýmis matvælafyrirtæki sættu þá rannsókn sem loks kom lögregluyfirvöldum á slóð hollensks ríkisborgara sem þekktur var í heimi viðskipta með hrossakjöt. Ekki var þá vitað hvar sá væri niðurkominn.

Meðal þess sem hinir handteknu hafa verið ákærðir fyrir er …
Meðal þess sem hinir handteknu hafa verið ákærðir fyrir er ill meðferð á dýrum. Ljósmynd/Europol

Sumarið 2016 var ráðist í aðgerð sem kölluð var Gazel-aðgerðin eftir að óeðlilegrar hegðunar varð vart á hrossakjötsmörkuðum. Upp komst um svindl þar sem illa á sig komnum hrossum, of gömlum og sem merkt voru „óhæf til manneldis“ var slátrað í tveimur sláturhúsum.

Dýrin komu frá Portúgal og nokkrum svæðum á Norður-Spáni þar sem kjötið var meðhöndlað og síðan sent til Belgíu, sem er einn stærsti hrossakjötsútflytjandi Evrópusambandsins. Glæpasamtökin fölsuðu skráningar um uppruna dýranna.

Grunaður höfuðpaur handtekinn í Belgíu

Meðan á rannsókninni stóð tókst lögreglu á Spáni að staðsetja hollenska viðskiptamanninn á Alicante á Spáni. Þaðan hafi hann stýrt starfsemi samtakanna og hafði hann menn á sínum snærum til að stýra starfseminni í öllum þeim löndunum sem um ræðir.

Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að þáttur Spánar í glæpasamtökunum væri aðeins lítill hluti af starfseminni sem var umfangsmikil í mörgum löndum Evrópu og stýrt af fyrrnefndum Hollendingi sem loks var handtekinn í Belgíu.

Alls voru 66 einstaklingar handteknir eða sættu rannsókn. Þá voru nokkrir bankareikningar frystir og nokkrar fasteignir og hald lagt á fimm lúxusbifreiðir. Í ljósi umfangs málsins leitaði spænska lögreglan eftir aðstoð Europol við aðgerðina.

Ljósmynd/Europol
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert