Fundin eftir 75 ár undir jöklinum

Bærinn Chandolin.
Bærinn Chandolin. Wikipedia/Christian Sanzey

Lík Marcelin og Francine Dumoulin, foreldra sjö barna, hafa fundist við skíðalyftu í Ölpunum. 75 ár eru síðan hjónin hurfu sporlaust eftir að hafa haldið út til að mjólka kýr sínar fyrir ofan bæinn Chandolin í Valais 15. ágúst 1942.

 „Við leituðum þeirra alla ævi, án þess að stoppa. Við töldum að við myndum einhvern tímann getað veitt þeim þá útför sem þau verðskulduðu,“ sagði Marceline Udry-Dumoulin, yngsta dóttir hjónanna, í samtali við Le Matin í Lausanne.

„Ég get sagt að eftir 75 ára bið þá sækir nú að mér djúpstæð ró,“ segir Udry-Dumoulin, sem fæddist sama ár og foreldrar hennar hurfu.

Samkvæmt lögregluyfirvöldum fundust líkin tvö í síðustu viku á Tsanfleuron-jöklinum, nærri skíðalyftu fyrir ofan Les Diablerets-skíðaparadísina. Á líkunum fundust persónuskilríki en erfðarannsóknir verða engu að síðar framkvæmdar.

„Líkin lágu nærri hvort öðru. Þetta voru maður og kona í klæðnaði frá tíma seinni heimstyrjaldarinnar,“ sagði Bernhard Tschannen, framkvæmdastjóri Glacier 3000.

„Þau varðveittust fullkomlega í jöklinum og eigur þeirra voru óskemmdar.“

Tschannen sagði í samtali við Tribune de Geneve að menn teldu hjónin mögulega hafa fallið ofan í sprungu og legið þar áratugum saman, þar til jökullinn skilaði þeim aftur.

Marceline Dumoulin, 40 ára skósmiður, og Francine, 37 ára kennari, áttu fimm syni og tvær dætur.

„Þetta var í fyrsta sinn sem móðir mín fór með honum í leiðangur sem þennan. Hún var alltaf ólétt og gat ekki klifrað við erfiðar aðstæður í jöklinum,“ sagði Udry-Dumoulin.

„Eftir einhvern tíma vorum við börnin aðskilin og okkur komið fyrir hjá fjölskyldum. Ég var svo heppinn að fá að dvelja hjá frænku minni. Við bjuggum öll á svæðinu en urðum ókunnug hvort öðru.“

Udry-Dumoulin segist ekki hyggjast klæðast svörtu við útför foreldra sinna.

„Ég held að hvítur sé meira viðeigandi. Hann stendur fyrir vonina, sem ég glataði aldrei.“

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert