Var páfagaukurinn vitni að morðinu?

Páfagaukur af tegundinni African Grey, líkt og Bud.
Páfagaukur af tegundinni African Grey, líkt og Bud. Af Wikipedia

Dómstóll í Michigan hefur úrskurðað konu seka um að myrða eiginmann sinn með því að skjóta hann fimm sinnum. Bud, páfagaukur þeirra hjóna, var vitni að morðinu.

Í frétt BBC um málið segir að Glenna Duram hafi skotið Martin, eiginmann sinn, fyrir framan páfagaukinn áður en hún beindi byssunni að sjálfri sér og reyndi að fremja sjálfsvíg.

Páfagaukurinn endurtók síðar orðin „ekki skjóta“ með rödd Martins, að sögn fyrrverandi eiginkonu hans og núverandi eiganda fuglsins, sem er af tegundinni African Grey.

Bud var ekki viðstaddur réttarhöldin, en kviðdómur úrskurðaði Duram seka um fyrstu gráðu morð eftir nokkurra daga umhugsun. Dómari mun tilkynna um lengd dómsins í næsta mánuði.

Duram fékk sár á höfuð er hún reyndi að fremja sjálfsvígið, en lifði tilraunina af.

Christina Keller, fyrrverandi eiginkona Duram og núverandi eigandi Bud, sagðist telja að fuglinn hafi verið að endurtaka samræður frá morðnóttinni, sem hún sagði enda á orðunum „ekki skjóta“.

Foreldrar Martin Durams voru sammála því að svo gæti vel verið.  

„Persónulega tel ég hann hafa verið þarna og að hann muni þetta og hafi verið að segja þetta,“ sagði faðir Martin Duram við fjölmiðla. „Þessi fugl endurtekur allt sem sagt er, hann er með mesta sóðakjaft sem um getur,“ bætti móðir Durams, Lillian Duram við.

Saksóknari í Michigan hugleiddi upphaflega að nota kvak páfagauksins sem sönnunargögn, en hætti síðar við, enda ólíklegt að fuglinn gæti borið vitni við réttarhöldin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert