Mótmæla stjórnarskrárbreytingum Maduros

Mótmælendur lokuðu götum höfuðborgarinnar Caracas með því að brenna þar …
Mótmælendur lokuðu götum höfuðborgarinnar Caracas með því að brenna þar rusl. AFP

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, þrýsti í dag áfram á um breytingar á stjórnarskrá landsins sem Venesúelabúar kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu á morgun. Mikil andstaða er í Venesúela, sem og víða í alþjóðasamfélaginu, við þessi áform Maduros sem veita forsetanum aukin völd.

Hópar fólks tóku þátt í mótmælum í borgum landsins og höfðu þar að vettugi bann sem Maduro setti á mótmælaaðgerðir gegn stjórninni. Lokuðu mótmælendur m.a. ýmsum vegum til höfuðborgarinnar Caracas með rusli, sem þeir kveiktu í.

Frumvarpið fer í þjóðaratkvæðagreiðslu á morgun. Stjórnarandstaða Venesúela hefur hvatt til þess að mótmælt verði alla helgina og lengur til að þrýsta á Maduro að hætta við. Hún hefur einnig sagt að brögð verði í tafli við atkvæðagreiðsluna og hvatt til þess að kjósendur sniðgangi kosninguna. Segir AFP því líklegt að stuðningsmenn Maduros verði í miklum meirihluta þeirra sem mæti á kjörstað á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert