Rannsakað sem hryðjuverk

Franskur hermaður stendur vörð í Levallois-Perret.
Franskur hermaður stendur vörð í Levallois-Perret. AFP

Hryðjuverkadeild skrifstofu saksóknara í París hefur tekið yfir rannsóknina á atvikinu síðan í morgun þar sem bifreið var ekið inn í hóp hermanna í úthverfi Parísar, Levallois-Perret. 

Að sögn saksóknara er um tilraun til manndráps að ræða og er um hryðjuverk að ræða, segir saksóknari í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í morgun.

Sex hermenn særðust í árásinni, þar af tveir alvarlega. Enginn er í lífshættu. Lögregla leitar ökumanns BMW bifreiðarinnar en hann flúði af vettvangi.

Árásin var gerð klukkan 8:15 að staðartíma, klukkan 6:15 að íslenskum tíma, og var hún gerð fyrir utan aðsetur hersins við Verdun torg í  Levallois-Perret. Allt bendir til þess að hann hafi ekið viljandi inn í hóp hermanna og stungið síðan af.

Frá Levallois-Perret.
Frá Levallois-Perret. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert