Báðu gyðinga um að nota sturturnar

Hotel Paradies. Framkvæmdastjórinn segir texta sinn hafa verið barnalegan og …
Hotel Paradies. Framkvæmdastjórinn segir texta sinn hafa verið barnalegan og að betra hefði verið að beina tilmælunum til allra gesta.

Svissneskt hótel þar sem gestum úr röðum gyðinga var bent á  með skilti við sundlaugarbakkann að nota sturturnar áður en þeir færu í sundlaugina og sem takmarkaði aðgang þeirra að frysti hótelsins hefur vakið mikla reiði og gagnrýni frá yfirvöldum í Ísrael.

Paradies íbúðahótelið í þorpinu Arosa í svissnesku Ölpunum hefur verið sakað um gyðingahatur eftir að gestir birtu ljósmyndir af skilti við hótelsundlaugina á Facebook-síðum sínum.

„Vilja gyðingagestir okkar, konur, karlar og börn vinsamlegast fara í sturtu áður en þeir fara í sundlaugina,“ sagði á skiltinu. „Ef þið brjótið reglurnar þá neyðist ég til að loka á aðgang ykkar að lauginni.“

Á öðru skilti í eldhúsinu stóð að gestir úr röðum gyðinga geti aðeins gengið í frystinn á milli 10 og 11 á morgnana og á milli 4.30 og 5.30 síðdegis. „Ég vona að þið skiljið að starfsfólk okkar vill ekki verða fyrir sífelldum truflunum,“ stóð á skiltinu.

Vilja fordæmingu svissneskra yfirvalda

Myndir af skiltunum náði hratt útbreiðslu á samfélagsmiðlum og ísraelskir fjölmiðlar greindu frá málinu, sem aftur kallaði á hörð viðbrögð ísraelskra ráðamanna.

Tzipi Hotovely, einn af aðstoðarráðherrum ísraelska utanríkisráðuneytisins, sagði þetta vera gyðingahatur af verstu og ljótustu gerð“.

Sendiherra Ísraels í Sviss, Jacob Keidar, er sagður hafa sett sig í samband við hótelið sem hafi fjarlægt skiltin. Þá fór hann fram á „formlega fordæmingu“ frá svissneskum stjórnvöldum.

Tilman Renz talsmaður svissneska utanríkisráðuneytisins, sagði AFP-fréttastofunni að yfirvöld hefðu tjáð Keidar að svissnesk yfirvöld fordæmi rasisma og gyðingahatur í hvaða mynd sem er.

Segir textann hafa verið barnalegan

Ruth Thomann, framkvæmdastjóri Paradies, fullyrðir hins vegar að hún sé ekki gyðingahatari og að orðalag sitt hafi verið klaufalegt.

Í viðtali við dagblaðið Blick sagði hún fjölda gesta á íbúðahótelinu vera gyðinga og að aðrir gestir hefðu kvartað yfir að sumir þeirra færu ekki í sturtu áður en þeir færu í laugina. Hún hefði verið beðin um að gera eitthvað í málinu.

Þetta var barnalegur texti sem ég skrifaði á skiltið,“ sagði Thomann og viðurkenndi að betra hefði verið að beina orðunum til allra gesta.

Paradies er að sögn AFP mjög vinsælt meðal rétttrúaðra Gyðinga af því að þar er  leitast við að verða við kröfum þeirra, m.a. um aðgang að frysti þar sem geyma megi kosher matvæli.

Thomann sagði Blick að þar sem frystirinn sem um ræðir sé í starfsmannaherberginu þá hafi henni fundist nauðsynlegt að setja tímatakmörk á það hvenær gestir farið í frystinn, þannig að starfsfólk gæti notið hádegis- og kvöldverðar í friði.  

Simon Wiesenthal stofnunin sem berst fyrir réttindum gyðinga gagnrýndi málið harðlega og krafðist þess að svissnesk stjórnvöld lokuðu „haturshótelinu og refsuðu stjórn þess“. Þá setti stofnunin sig einnig í samband við bókunarvefinn Booking.com og fór fram á a hótelið yrði fjarlægt af vefnum vegna gyðingahaturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert