Fjarstæðukennd atburðarás á láti Wall skýrist

Jens Møller stýrir rannsókninni á morði Kim Wall.
Jens Møller stýrir rannsókninni á morði Kim Wall. AFP

Staðfest var í dag að líkið sem fannst á suðurströnd Amager í Kaupmannahöfn á mánudag, tilheyrir sænsku blaðakonunni Kim Wall. Lík hennar var þyngt með einhverskonar járnhlut, til að tryggja að það myndi sökkva á hafsbotn.

Þá var einnig staðfest að blóð blaðakonunnar hefði fundist í kafbátnum Nautilus, en þetta kom fram í máli rannsóknarlögreglumannsins Jens Møller, sem stýrir rannsókn málsins.

Hann segir að lögregla hafi frekari upplýsingar um það hvernig lík Wall var hlutað í sundur, en að þær verði ekki gefnar upp að svo stöddu.

Fjarstæðukennd atburðarás

Atburðarás þessa máls er ótrúleg. Ung sænsk blaðakona ætlaði sér að skrifa grein um danskan auðmann sem hefur smíðað sinn eigin kafbát og heldur með honum á haf út, en endar sundurskorin í fjörunni, sunnarlega á Amager.

Hér að neðan er tímalína málsins, frá því að Kim Wall steig um borð í kafbát Peters Madsen á bryggjunni í Kaupmannahöfn þann 23. ágúst og þar til í dag, þegar staðfest hefur verið að líkamsleifar hennar hefðu fundist á mánudag.

Sænska blaðakonan Kim Wall.
Sænska blaðakonan Kim Wall. AFP

 Tímalína í rannsókninni á morði Kim Wall

Fimmtudagur, 10. ágúst

  • Kafbáturinn UC3 Nautilus siglir af stað frá Kaupmannahöfn í prufusiglingu. Um borð eru danski auðkýfingurinn Peter Madsen og sænska blaðakonan Kim Wall, en hún hugðist skrifa grein um kafbátinn, sem Madsen smíðaði sjálfur.

Föstudagur, 11.ágúst

  • Kærasti Kim Wall tilkynnir eftir miðnætti að hann sakni hennar og í ljós kemur að kafbáturinn hefur ekki snúið aftur til Kaupmannahafnar. Ekki næst samband við kafbátinn.
  • Leit að kafbátinum er sett af stað um nóttina og er meiri kraftur settur í leitina er líður að morgni.
  • Kafbáturinn sést skammt frá Eyrarsundsbrúnni um kl. 10:30 að morgni og þá næst talstöðvarsamband við Peter Madsen, sem segist hafa lent í tæknilegum erfiðleikum.
  • Fyrst heldur hann því fram að Kim Wall sé með honum um borð, en síðar kemur í ljós að Madsen er einn í kafbátnum.
  • Þá heldur hann því fram að hann hafi skilað blaðakonunni að bryggju í Kaupmannahöfn á fimmtudagskvöldið, en haldið á haf út einsamall.
  • Kafbáturinn sekkur skyndilega sunnan við Amager, um kl. 11 að morgni og var Madsen bjargað á land.
  • Síðdegis tilkynnir lögreglan í Kaupmannahöfn að Peter Madsen sé grunaður um að hafa orðið sænsku blaðakonunni að bana.

Laugardagur, 12. ágúst

  • Peter Madsen er yfirheyrður og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. september, fyrir manndráp af gáleysi.
  • Hafist er handa við að lyfta kafbátnum Nautilus af hafsbotni.

Sunnudagur, 13. ágúst:

  • Lögreglan í Kaupmannahöfn upplýsir að engin manneskja hafi fundist í kafbátnum og að allt bendi til þess að kafbátnum hafi verið sökkt vísvitandi.

Miðvikudagur, 16. ágúst

  • Fram kemur að dómstólar í Kaupmannahöfn hafi breytt orðalagi í gæsluvarðhaldsúrskurði sínum úr „manndráp af gáleysi“ yfir í „manndráp af gáleysi við sérstaklega alvarlega aðstæður.“ Í dönskum lögum nær það orðalag meðal annars yfir þá sem verða öðrum að bana með ölvunar- eða fíkniefnaakstri.
  • Leitað er af miklum krafti í hafinu á milli Danmerkur og Svíþjóðar.
Sænskur björgunarsveitarbátur við leit að Kim Wall.
Sænskur björgunarsveitarbátur við leit að Kim Wall. AFP

Mánudagur, 21. ágúst

  • Tilkynnt er að Peter Madsen hafi sagt við yfirheyrslur að óhapp hafi orðið um borð í kafbátnum, sem leitt hafi til þess að Kim Wall lést.
  • Eftir lát hennar hafi hann ákveðið að „grafa“ hana í hafinu og hent líki hennar útbyrðis.
  • Að kvöldi mánudags tilkynnir lögreglan í Kaupmannahöfn um líkfund, sunnan við Amager í Kaupmannahöfn og að höfuð, hendur og fætur vanti á búkinn.
  • Augljós þykir að líkið hafi legið í vatni nokkra hríð.

Þriðjudagur, 22. ágúst

  • Ekki næst að staðfesta strax hvort búkurinn sem fannst sé af Kim Wall.
  • Ljóst þykir að útlimir líksins hafi verið vísvitandi fjarlægðir.

Miðvikudagur, 23. ágúst

  • Lögregla staðfestir eftir DNA-rannsókn að búkurinn sem fannst við Amager á mánudag sé lík sænsku blaðakonunnar Kim Wall.
  • Staðfest er að blóð blaðakonunnar hafi fundist um borð í kafbátnum og að einhverskonar járnstykki hafi verið fest við líkið, líklega til að það myndi sökkva á sjávarbotn.
Yfirrannsóknarlögreglumaðurinn Jens Møller á blaðamannafundi lögreglu í morgun.
Yfirrannsóknarlögreglumaðurinn Jens Møller á blaðamannafundi lögreglu í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert