900 opinberir embættismenn reknir til viðbótar í Tyrklandi

Tyrkneska leyniþjónustan, sem áður heyrði undir forsætisráðherra landsins, mun nú …
Tyrkneska leyniþjónustan, sem áður heyrði undir forsætisráðherra landsins, mun nú heyra undir Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins, sem er liður í að veita forsetanum enn meiri völd yfir opinberum stofnunum. AFP

Í nýjustu hrinu uppsagna í kjölfar misheppnaðs valdaráns í Tyrklandi á síðasta ári hefur yfir 900 opinberum embættismönnum verið sagt upp. Þetta kemur fram í neyðarskipun sem gerð var opinber í dag.

Í annarri skipun kemur fram að nú muni tyrkneska leyniþjónustan, sem áður heyrði undir forsætisráðherra landsins, heyra undir Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins, sem er liður í að veita forsetanum enn meiri völd yfir opinberum stofnunum.

Alls var 928 ráðamönnum sagt upp störfum, þar á meðal voru starfsmenn í öryggisráðum, innlendum og erlendum ráðuneytum sem og starfsfólk hersins. Í tilkynningunni kemur þó einnig fram að yfir 700 manns sem áður höfðu verið reknir hafi snúið aftur til starfa.

Yfir 140.000 manns hefur verið sagt upp störfum vegna gruns um aðkomu að valdaránstilrauninni sem fór fram í júlí í fyrra, auk þess sem yfir 50.000 manns hafa verið handteknir. Neyðarástand er í landinu og eru valdamenn sakaðir um að nota það sem afsökun til að útrýma hvers kyns mótstöðu. Yfirvöld í Tyklandi hafna þessum ásökunum og segja ástandið nauðsynlegt til að tryggja öryggi landsins fyrir Kúrdum og Fetuhullah Gulen, sem hefur verið sakaður um að standa á bak við valdaránstilraunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert