Drap broddgölt í reiðikasti

AFP

Breskur karlmaður á þrítugsaldri slapp við fangelsisdóm fyrir að hafa drepið broddgölt með múrsteini í kjölfar rifrildis við unnustu sína. Maðurinn, Liam Aitken, rauk út í garð við heimili þeirra í bænum Wallasey í Bretlandi eftir rifrildið í maí á þessu ári og rak þar augun í broddgöltinn. Greip hann múrsteininn og barði dýrið sex sinnum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Aitken hafi viðurkennt að hafa drepið broddgöltinn fyrir dómi. Slapp hann við fangelsisdóm en hlaut þess í stað þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og fyrirmæli um að hafa stjórn á skapi sínu í framtíðinni. Þá þarf hann að sinna 200 klukkustunda ólaunaðri samfélagsvinnu.

Aitken var enn fremur dæmdur til þess að greiða tæp eitt þúsund pund vegna málsins. Sagðist hann fyrir dómi ekki vita hvers vegna hann hafi ráðist á broddgöltinn en hann hafi titrað af reiði eftir rifrildið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert