Malala biðlar til Suu Kyi

Aung San Suu Kyi (t.h.) og Malala Yousafzai eru báðar …
Aung San Suu Kyi (t.h.) og Malala Yousafzai eru báðar handhafar friðarverðlauna Nóbels. Samsett/AFP

Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai er í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa stjórnvöld og leiðtoga Búrma, Aung San Suu Kyi, vegna aðstæðna Rohingja-fólksins þar í landi. Rohingjar er íslamskur minnihlutahópur sem hefur sætt ofsóknum í landinu.

Um 125 þúsund manns af Rohingja-þjóðinni hafa flúið til nágrannaríkisins Bangladess á síðustu tíu dögum í kjölfar átaka skæruliða og hersins í Rakhine-ríki í vesturhluta Búrma. 37 þúsund hafa flúið síðasta sólarhringinn.

Ríkið er eitt fátækasta svæði Búrma og á landamæri að Bangladess. Þar hefur ólga milli múslima og búddista verið viðvarandi árum saman og þar eru Rohingjar neyddir til að hafast við. Þeir hafa ekki ferðafrelsi og borgaraleg réttindi þeirra eru að öðru leyti einnig skert.

Átökin hafa verið viðvarandi frá því í október í fyrra er lítill skæruliðahópur Rohingja gerði áhlaup á landamærastöðvar í ríkinu. Ofbeldið sem fylgdi í kjölfarið er það grófasta sem um getur í áraraðir. Sameinuðu þjóðirnar telja að her Búrma hafi orðið uppvís að þjóðernishreinsunum í sínum harkalegu viðbrögðum við áhlaupi skæruliðahópsins.

Suu Kyi var áður pólitískur fangi herforingjastjórnar Búrma. Henni var haldið í stofufangelsi árum saman. Nú, þegar hún er orðin leiðtogi landsins, sætir hún sífellt meiri gagnrýni fyrir að viðurkenna ekki ofbeldið í vestri gegn Rohingjunum sem þar búa. Hún hefur til að mynda ekkert tjáð sig um átökin sem hófust þann 25. ágúst og standa enn yfir.

„Í hvert sinn sem ég sé fréttirnar þá veldur það mér hugarangri að sjá þjáningar Rohingja-múslima í Búrma,“ segir baráttukonan og friðarverðlaunahafinn Malala Yousafzai sem hóf baráttu sína fyrir mannréttindum eftir að hafa verið skotin í höfuðið af talibönum í heimalandinu Pakistan.  „Síðustu ár hef ég ítrekað fordæmt þennan harmleik og þessa skammarlegu meðferð. Ég er enn að bíða eftir því að Aung San Suu Kyi, sem einnig er friðarverðlaunahafi Nóbels, geri slíkt hið sama,“ skrifaði Malala á Twitter. 

Tugþúsundir Rohingja hafa flúið til Bangladess síðustu daga. Ofbeldið gegn …
Tugþúsundir Rohingja hafa flúið til Bangladess síðustu daga. Ofbeldið gegn þeim hefur staðið í um ár. AFP

Anifah Aman, utanríkisráðherra Malasíu, hefur einnig gagnrýnt þögn Suu Kyi. „Í hreinskilni sagt er ég óánægður með Aung San Suu Kyi,“ sagði ráðherrann í viðtali við AFP-fréttastofuna. „Áður barðist hún fyrir mannréttindum. Núna virðist hún ekki vera að gera neitt.“

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti gagnrýndi stjórnvöld í Búrma einnig í síðustu viku fyrir það sem hann kallaði „þjóðarmorð“ á Rohingjum. „Því miður er mikið fjöldamorð að eiga sér stað í Búrma. Mannkynið horfir hljótt á.“

Stjórnvöld fleiri þjóða þar sem múslimar eru í meirihluta hafa gagnrýnt stjórnvöld í Búrma. Í þeirra hópi eru Indónesar og stjórnvöld á Maldíveyjum. Þau síðarnefndu tilkynntu í gær að þau ætluðu að takmarka öll viðskipti við Búrma þar til stjórnvöld þar í landi myndu grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekara ofbeldi og ofsóknir á Rohingjum. 

Mannlegur harmleikur sem þarf að stöðva

 „Enn og aftur, þennan mannlega harmleik verður að stöðva þegar í stað,“ sagði Joko Widodo, forseti Indónesíu, á sunnudag. Þann dag hafði bensínsprengju verið hent á sendiráð Búrma í Jakarta í Indónesíu. Mótmæli fóru fram við sendiráðið í gær. 

Utanríkisráðherra Pakistans segist hafa miklar áhyggjur af ástandinu og í sama streng tekur kollegi hans í Íran. Hann segir að umheimurinn aðhafist ekkert á meðan ofbeldið gegn Rohingjum magnist. 

Sérfræðingar hafa lengi bent á að meðferð stjórnvalda í Búrma á Rohingjum ýti undir uppreisn og myndun skæruliðahópa. Þeir gætu vaxið með stuðningi alþjóðlegra samtaka vígamanna. 

Slík atburðarás er þegar hafin. Angi hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda, sem aðallega stunda nú skæruhernað í Jemen, hafa hvatt til hefndaraðgerða gegn Búrma og talibanar í Afganistan hafa hvatt múslima til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa múslimum í Búrma sem verið sé að kúga. 

Hefur lítið vald yfir hernum

Stuðningsmenn Suu Kyi segja henni til varnar að hún hafi litla stjórn á hernum í landi sínu. Herinn lætur illa að hennar stjórn og enn eimir eftir sjálfstæði hans frá því að herforingjastjórn var í Búrma allt þar til fyrir nokkrum árum. 

Í Búrma líta margir á Rohingja sem óboðna gesti frá Bangladess þrátt fyrir að þeir hafi í nokkrar kynslóðir búið í landinu. Því er ekki almennur stuðningur við þennan minnihlutahóp meðal búrmnesku þjóðarinnar. 

Þrátt fyrir þær skýringar að Suu Kyi hafi lítið vald yfir hernum horfa flestir til hennar sem lykilmanneskju í því að stöðva ofbeldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert