130 tonna fitu- og hreinlætisvörumassi

„Fitujakinn“ svakalegi telur um 130 tonn.
„Fitujakinn“ svakalegi telur um 130 tonn. Ljósmynd/Thames Water

Átta manna hópur vinnur nú að því sjö daga vikunnar að losa stíflu í frárennsliskerfi Lundúnarborgar. Um er að ræða svokallaðan „fitujaka“, eða „fatberg“, samkvæmt tilkynningu frá Thames Water; grjótharðan massa sem telur um 130 tonn.

Þyngd massans jafngildir ellefu tveggja hæða strætóum en hann samanstendur af steikingarfitu og hreinlætisvörum á borð við blautþurrkur. Fitujakinn situr fastur undir Whitechapel-hverfinu og er einn sá stærsti í sögu borgarinnar.

Massinn verður fjarlægður í pörtum en samkvæmt Thames Water eru um 20-30 tonn brotin af honum og flutt til endurvinnslu á hverjum degi. Ku verkið líkjast því að brjóta upp steinsteypu, svo massívur er fituklumpurinn.

Stíflur af völdum steikingarfitu og hreinlætisvörum verða um átta sinnum í viku í Lundúnarborg og segjast forsvarsmenn Thames Water verja um 1,3 milljónum punda á mánuði í að fjarlægja þær.

Fitujaki myndaðist síðast undir borginni árið 2013, en þá var um að ræða 15 tonna massa í Kingston. Þrjár vikur tók að fjarlægja þann fituklump, sem stíflaði kerfið algjörlega.

NPR sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert