Suu Kyi mætir ekki á allsherjarþing SÞ

Afganir taka hér þátt í mótmælum gegn ofsóknum Rohingja í …
Afganir taka hér þátt í mótmælum gegn ofsóknum Rohingja í Búrma. Er Aung San Suu Kyi þar hvött til að segja af sér. AFP

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, mun ekki vera viðstödd allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í næstu viku að því er BBC greinir frá. Suu Kyi sætir nú vaxandi gagnrýni hjá alþjóðasamfélaginu fyrir að gera ekkert til að stöðva ofsóknir í garð Rohingja-fólks, sem er minnihlutahópur múslima í landinu.

Talið er að um 370.000  Rohingj­ar hafa nú flúið hernaðaraðgerðir stjórn­ar­hers­ins í Rak­hine fylki eft­ir að til átaka kom þar í síðasta mánuði. Zeid Raad al-Hus­sein, mann­rétt­inda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, sagði í gær aðgerðir stjórn­ar­hers­ins  vera skóla­bóka­dæmi um þjóðern­is­hreins­an­ir.

Margir helstu stuðningsmanna Suu Kyi á Vesturlöndum til þessa hafa nú gagnrýnt hana fyrir aðgerðarleysi gegn þeirri grimmd sem herinn sýnir Rohingjum, sem flýja nú landið í ofboði.

Aung San Suu Kyi er hún tók við friðarverðlaunum Nóbels. …
Aung San Suu Kyi er hún tók við friðarverðlaunum Nóbels. Ímynd hennar á alþjóðavettvangi hefur borið mikla hnekki aðgerðaleysis hennar gagnvart ofsóknum í garð Rohingja. AFP

Herinn í Búrma segist hins vegar vera að berjast við uppreisnarmenn Rohingja og neitar með öllu að aðgerðunum sé beint gegn almennum borgurum.

„Mögulega“ að sinna meira aðkallandi málum

Zaw Htay, talsmaður búrmísku stjórnarinnar, segir Suu Kyi ekki verða meðal þátttakenda á allsherjarþinginu. Hún flutti ræðu þar á síðasta ári og varði þá aðgerðir búrmískra ráðamanna í garð Rohingja. Htay tjáði sig ekki frekar um það hvers vegna Suu Kyi verði fjarverandi.

Annar talsmaður stjórnarinnar, Aung Shin, sagði Reuters fréttastofunni að „mögulega“ þurfi Suu Kyi að taka á „meira aðkallandi málum,“ og bætti við „hún er aldrei hrædd við gagnrýni eða að taka á vandamálum“.

Sendifulltrúi Búrma hjá Sameinuðu þjóðunum segir Rohingja bera ábyrgð á átökunum í Rakhine fylki. Búrmísk stjórnvöld muni aldrei líða slík grimmdarverk. Margir þeirra sem flúið hafa til Bangladess segja hins vegar búrmíska herinn hafa brugðist við árásum uppreisnarmanna Rohingja 25. Ágúst með hrottalegum árásum þar sem þorp hafi verið brennd með það að markmiði að hrekja íbúa á brott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert