Hleypa konum inn á íþróttaleikvang

Karlkyns áhorfendur fagna á fótboltaleik á King Fahad-vellinum 11. september …
Karlkyns áhorfendur fagna á fótboltaleik á King Fahad-vellinum 11. september síðastliðinn. AFP

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa leyft konum að fara inn á íþróttaleikvang í fyrsta sinn til að taka þátt í þjóðhátíðardegi landsins með fjölskyldum sínum.

Fjölskyldum verður hleypt inn á leikvanginn King Fahd í höfuðborginni Riyadh, sem hefur hingað til nær eingöngu verið notaður fyrir fótboltaleiki. Fjölskyldurnar munu ekki sitja á sama svæði og einhleypir karlmenn.

„Leikvangurinn getur tekið við um 40 þúsund manns sem verður skipt á milli einstaklinga og fjölskyldna sem munu sitja á sér svæði,“ sagði í yfirlýsingu.

Hingað til hafa konur ekki fengið að stíga fæti inn á íþróttaleikvanga vegna strangra reglna um aðskilnað kynjanna á meðal almennings.

Réttindi kvenna í Sádi-Arabíu eru ein þau allra minnstu í heiminum. Til að mynda er þeim meinað að aka bílum.

Konur þurfa leyfi frá karlkyns fjölskyldumeðlimum til að fá að stunda nám og ferðast.

Reglurnar hafa þó rýmkast eitthvað sem hluti af áætlun þar sem horft er til ársins 2030 um efnahagslegar- og félagslegar umbætur í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert