Vænta aukinnar árásargirni

AFP

Lögregla í Ástralíu leitar nú einstaklings eða einstaklinga sem drápu risastóran saltvatnskrókódíl í Fitzroy-ánni í Queensland. Yfirvöld hafa varað við því að yngri krókódílar á svæðinu kunni að verða árásargjarnari í kjölfarið.

Hið 5,2 metra karldýr fannst í gær. Hafði það verið skotið einu sinni í höfuðið.

Lögum samkvæmt er ólöglegt að drepa krókódíla án leyfis en hæst sekt vegna ólögmæts dráps eru 2,4 milljónir króna.

Yfirvöld freista þess nú að forða stórslysi.

„Fólk þarf að öðlast skilning á því að dauði þessa dýrs hefur breytt jafnvæginu meðal krókódílasamfélagsins á svæðinu,“ sagði Michael Joyce, starfsmaður umhverfisráðuneytisins, í samtali við fréttastofu ABC.

Hann sagði að vænta mætti aukinnar árásarhneigðar meðal yngri krókódílanna, þar sem þeir kepptust við að fylla skarð stóra karldýrsins.

Joyce sagði að auki að skepnan sem var drepinn hefði ekki verið vandamál, miklu heldur mikilvægur hlekkur í vistkerfinu á svæðinu.

Saltvatnskrókódílum hefur fjölgað mjög eftir að þeir voru friðaðir á 8. áratug síðustu aldar. Þeir geta orðið allt að 7 metrar og vegið meira en tonn. Að meðaltali verða þeir tveimur manneskjum að bana á ári hverju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert