Sagt að fjármagna námið með stefnumótasíðu

Stefnumótasíðan Rich meet Beautiful kemur eldri körlum, svo nefndum „sugar …
Stefnumótasíðan Rich meet Beautiful kemur eldri körlum, svo nefndum „sugar daddies“ í samband við yngri konur. Skjáskot/Rich meet beautiful

Auglýsingaherferð stefnumótasíðu, þar sem ungum konum er bent á að þær geti fjármagnað nám sitt með því að fara á stefnumót með efnuðum eldri mönnum, hefur vakið mikla reiði í belgíska háskólasamfélaginu.

Auglýsingarnar eru fyrir stefnumótasíðuna Rich meet Beautiful sem kemur eldri körlum, svo nefndum „sugar daddies“, í samband við yngri konur. Auglýsingarnar hafa m.a. birst á flutningabílum sem ekið hefur verið um háskólasvæði með skilaboðum á borð við „Hey stúdentar! Bætið lífstíl ykkar“ og „Engin námslán? Farið á stefnumót með „sugar daddy“.“

Stjórnmálamenn og háskólayfirvöld leita nú lagalegra leiða til að stöðva auglýsingaherferðina, en í fréttatilkynningu sem stefnumótavefurinn sendi frá sér kom fram að hann gerði ráð fyrir að vera kominn með um 300.000 belgíska félaga fyrir árslok 2018.

Vefsíðan, sem rekin er af Norðmanninum Sigurd Vedal, hefur þegar sætt mikilli gagnrýni í Noregi vegna auglýsingaherferðar þar í landi.

BBC segir svonefnd „sugar daddy“-öpp þegar vera notuð af breskum námsmönnum, en yfirvöld í Belgíu og Noregi segja auglýsingaherferðina og þá aðferð sem vefsíðan notar til að laða að ungar konur vera áhyggjuefni.

Vedal sagði í samtali við belgíska fjölmiðla að vefsíðan væri ekki að auglýsa vændi, þó að peningar ættu þátt í öllum samböndum. Konur, sagði Vedal, væru að leita að valdamiklum og gáfuðum mönnum. „Frá því að 50 gráir skuggar [kom út] þá eru konar frjálsari og eru tilbúnar að tjá þessa löngun,“ sagði Vedal.

Yfirvöld í Belgíu hafa sagst ætla í mál við stefnumótasíðuna fyrir að hvetja til vændis og siðspillingar.

Fyrr í mánuðinum sagði umboðsmaður neytenda í Noregi að fjarlægja yrði auglýsingar vefsíðunnar þar sem að þær brytu lög um kynjajafnrétti.

Vedal sagði á þeim tíma að auglýsingunum væri beint að bæði körlum og konum og fælu þær því ekki í sér lögbrot.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert