Vill lýsa yfir sjálfstæði á næstunni

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu.
Carles Puigdemont, forseti Katalóníu. AFP

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, vonast til að héraðið geti lýst yfir sjálfstæði í lok þessarar viku eða í byrjun þeirrar næstu.

Þetta sagði hann í viðtali við BBC.

Ákvörðunin er þvert á skoðun Filippus Spánarkonungs sem óttast að ástandið í Katalóníu muni ógna stöðugleika á Spáni.

„Vísvitandi hundsað milljónir“

Puigdemont sagði í sjónvarpsávarpi sínu sem hann hélt í kvöld að Filippus konungur hafi „vísvitandi hundsað milljónir Katalóníubúa“ með því að hvetja héraðið til að láta af ósk sinni um sjálfstæði.

„Konungurinn hefur tileinkað sér stefnu stjórnvalda sem hefur gengið skelfilega þegar kemur að málefnum Katalóníu,“ sagði Puigdemont. „Hann er vísvitandi að hundsa milljónir Katalóníubúa.“

Evrópusambandið hefur hvatt til viðræðna á milli spænskra stjórnvalda og aðskilnaðarsinna í Katalóníu.

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, segir að fylgja þurfi spænsku stjórnarskránni. Hann segir myndir af ofbeldinu við atkvæðagreiðsluna í Katalóníu á dögunum vera „sorglegar“ en leggur áherslu á mikilvægi þess að fylgja lögum og reglum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert