Lögreglustjóri Katalóníu leiddur fyrir dómara

Josep Lluis Trapero, lögreglustjóri svæðislögreglunnar í Katalóníu, „Mossos D'Esquadra“.
Josep Lluis Trapero, lögreglustjóri svæðislögreglunnar í Katalóníu, „Mossos D'Esquadra“. AFP

Lögreglustjóri svæðislögreglunnar í Katalóníu, Josep Lluis Trapero, verður leiddur fyrir dómara í Madrid í dag. Trapero er grunaður um að dreifa uppreisnaráróðri gegn spænska ríkinu.

Lögreglusveitir Katalóníu, „Mossos d'Esquadra“, undir hans stjórn, eru sakaðar um að hafa brugðist því að vernda lögreglumenn úr röðum spænsku lögreglunnar fyrir mótmælendum sem fjölmenntu á götur Katalóníu 1. október, daginn sem héraðið kaus um sjálfstæði frá Spáni.

Annar yfirmaður úr röðum katalónsku lögreglunnar og tveir forystumenn sjálfstæðissinna verða einnig leiddir fyrir dómara, grunaðir um sams konar brot og Trapero. Þá eru fjórmenningarnir einnig sakaðir um að hafa brugðist því að hjálpa borgararlögreglunni í Barcelona við að ná tökum á þúsundum mótmælenda sem komu saman við efnahagsskrifstofu Katalóníu í Barcelona 20. september. 

Mikil óvissa ríkir um framtíð Katalóníu. Hæstiréttur Spánar dæmdi kosninguna um sjálfstæði Katalóníu frá Spáni ólöglega. Kosn­ingaþátt­taka var um 42% og kusu 90% með aðskilnaði frá Spáni. Loka­töl­ur hafa þó enn ekki verið birt­ar.

Stjórn­laga­dóm­stóll Spán­ar frestaði í gær fyr­ir­huguðum þing­fundi katalónska þings­ins sem halda átti á mánu­dag til að reyna að hindra að héraðið geti lýst yfir sjálf­stæði.

BBC greinir frá því að forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, muni funda með ríkisstjórn sinni í dag þar sem næstu skref verða rædd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert