Netflix hækkar áskriftargjöldin

Efnisúrvalið á Netflix er afar mismunandi eftir löndum og heimshlutum.
Efnisúrvalið á Netflix er afar mismunandi eftir löndum og heimshlutum. Skjáskot af íslensku útgáfu Netflix

Efnisveitan Netflix hyggst hækka áskriftargjöld í Bandaríkjunum og Bretlandi í fyrsta sinn í tvö ár. Þá er einnig von á hækkun í fleiri Evrópuríkjum.

Hefðbundin áskrift í Bretlandi mun hækka um 50 pence í 7,99 pund á mánuði en svokölluð premium áskrift hækkar um 1 pund í 9,99 pund á mánuði.

Hefðbundin áskrift í Bandaríkjunum hækkar um 1 dal í 10,99 dali á mánuði en premium áskriftin hækkar um 2 dali í 13,99 dali á mánuði.

Á Íslandi kostar hefðbundin áskrift 9,99 evrur en premium áskrift 11,99 evrur. Efnisúrval er mjög mismunandi eftir löndum og heimshlutum.

Breytingin tekur strax gildi fyrir nýja áskrifendur en aðrir verða látnir vita með 30 daga fyrirvara. Áskriftarverðið verður einnig hækkað í Þýskalandi og Frakklandi.

Stjórnendur Netflix greindu frá því í júlí sl. að áskrifendur efnisveitunnar teldu nú 104 milljónir á heimsvísu og að tekjur hefðu aukist um 32% á öðrum ársfjórðungi.

Fyrirtækið framleiðir sjálft sjónvarpsþætti og kvikmyndir sem hafa notið mikilla vinsælda, t.d. House of Cards, Crown og Stranger Things.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert