Gæti fyllt ráðhúsið í Ósló 150 sinnum

Mannen hefur oft hótað að hrynja. Gerir hann það í …
Mannen hefur oft hótað að hrynja. Gerir hann það í þetta skiptið? Kort/Google maps

Mannen, eða Maðurinn, er býsna nafntogað fjall í Horgheim í sveitarfélaginu Rauma í fylki sem Snorri Sturluson skrifaði sem Mæri og Raumsdal í konungasögum Heimskringlu en heitir í Noregi samtímans Møre og Romsdal og er á vesturströnd Noregs.

Mannen er 1.294 metra hár og nýtur þess vafasama heiðurs að vera vaktaðasta fjall Noregs en jarðfræðingar á vegum Norsku vatna- og orkumálastofnunarinnar (n. Norges vassdrags- og energidirektorat, NVE), eins konar Landsvirkjunar Noregs, fylgjast nú nótt sem nýtan dag með þessu náttúrufyrirbrigði en hrynji Mannen allur ofan í dalinn fyrir neðan yrði rúmmál þeirrar skriðu það mesta sem nokkru sinni hefur orðið í Noregi á sögutíma og 25 sinnum stærra en hinar frægu hamfarir í Nordfjord aðfaranótt 13. september 1936 þegar rúmir milljón rúmmetrar grjóts hrundu ofan í fjörðinn og ollu 74 metra hárri flóðbylgju sem kostaði 73 mannslíf.

Ráðhúsið í Ósló.
Ráðhúsið í Ósló. mbl.is/Atli Steinn

Rumskaði haustið 2014

Í október 2014 rumskaði Mannen rækilega og mældist mikil hreyfing í fjallinu. Brugðu almannavarnir og lögregla skjótt við og rýmdu íbúðabyggð fyrir neðan en á hættusvæðinu búa um 1.500 manns. Maðurinn sofnaði þó á ný í það skiptið en atburðarásin endurtók sig 2015 og í fyrra. Nú er svo komið að gliðnun í fjallinu hefur mælst um og yfir tíu sentimetrar á sólarhring síðan á föstudag í síðustu viku, eða í rétta viku.

„Tíu sentimetrar er býsna mikil hreyfing,“ segir Brigt Samdal, svæðisstjóri NVE í Mæri og Raumsdal, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en stofnunin hefur síðan á föstudagsmorgun í síðustu viku dælt 5.400 lítrum af vatni á klukkustund ofan í sprungur á fjallinu til þess að hraða ferlinu og binda enda á það óttablandna ástand sem íbúar á svæðinu hafa lifað við um áratuga skeið.

Óvíst er að meira en stakir hlutar Mannen falli í einu og er þar líklegastur kandídat talið hamrabelti sem gengur undir nafninu Veslemannen eða Litli-Maðurinn, en fari allt á versta veg og Mannen taki á rás í öllu sínu veldi yrði þar um að ræða 25 milljónir rúmmetra af grjóti. Til að setja slíkt magn í samhengi nægði það rúmmál til þess að fylla ráðhúsið í Ósló 150 sinnum.

Skýringarmyndband og umfjöllun dagblaðsins VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert