Braut lög og kvæntist rohingja-konu

Rohingya-múslimar í flóttamannabúðum í Bangladess.
Rohingya-múslimar í flóttamannabúðum í Bangladess. AFP

Lögreglan í Bangladess leitar að manni sem virti reglur að vettugi og kvæntist flóttakonu úr röðum rohingja-múslima. Hundruð þúsunda þeirra hafa flúið þangað yfir landamærin á flótta undan ofbeldi í Búrma.

Yfir hálf milljón flóttamanna rohingja hefur flykkst til Bangladess síðan hermenn hóf innreið sína í ríkið Rakhine í Búrma 25. ágúst. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst aðgerðinni sem þjóðernishreinsun.

Shoaib Hossain Jewel, 25 ára, og brúður hans úr röðum rohingja, hin átján ára Rafiza, hafa verið á flótta síðan þau gengu í hjónaband í síðasta mánuði, að sögn lögreglunnar í heimabæ Jewel, Singair.

Rohingya-múslimar í flóttamannabúðum.
Rohingya-múslimar í flóttamannabúðum. AFP

„Við fréttum að hann hefði kvænst rohingja-konu. Við fórum heim til hans í Charigram-þorpi til að leita að honum,“ sagði Khandaker Imam Hossain, lögreglustjóri í samtali við AFP.

„En við fundum hann ekki þar og foreldrar hans vita ekkert hvert hann fór,“ sagði hann og bætti við að málið væri í rannsókn.

Rohingya-múslimi bíður í rðð eftir læknisaðstoð fyrir barnið sitt.
Rohingya-múslimi bíður í rðð eftir læknisaðstoð fyrir barnið sitt. AFP

Stjórnvöld í Bangladess bönnuðu árið 2014 hjónabönd íbúa landsins og rohingja eftir fregnir um að hinir síðarnefndu reyndu að ganga í hjónabönd til að öðlast ríkisborgararétt í landinu en þar eru múslimar í meirihluta.

Babul Hossain, faðir Jewel, sagði að þetta væri ekki ástæðan fyrir hjónabandinu og varði ákvörðun hans. „Ef fólk í Bangladess má giftast kristnu fólki og fólki með önnur trúarbrögð, hvað er þá að því sonur minn kvænist rohingja-konu?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert