Skotmörkin voru stjórnmálamenn og moskur

AFP

Öfgahópurinn sem var handtekinn í Frakklandi í gær ætlaði sér að ráðast á stjórnmálamenn og moskur. Meðal skotmarka eru talsmaður ríkisstjórnarinnar og leiðtogi þeirra sem eru lengst til vinstri í frönsk­um stjórn­mál­um, Jean-Luc Melenchon, formaður La France insoumise.

Líkt og greint var frá á mbl.is í gær handtók franska hryðjuverkalögreglan tíu manns í gær vegna gruns um að fólkið væri að undirbúa hryðjuverk.

Fólkið, sem er á aldrinum 17-25 ára, var handtekið í París og nágrenni og suðausturhluta Frakklands. Lögreglan hefur undanfarið rannsakað starfsemi öfgahægrimanna en fólkið tengist öfgasamtökunum Action Française - Provence.

Um er að ræða níu karla og eina konu en þau tengjast öll Logan Alexandre Nisin, 21 árs gömlum aðgerðarsinna sem áður starfaði með Action Française - Provence. Hann var handtekinn í júní. Einhverjar heimildir herma að móðir hans hafi einnig verið handtekin í gær en það hefur ekki verið staðfest.

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að hópurinn ætlaði sér að ráðast á mosku, stjórnmálamann, hælisleitanda og eiturlyfjasala. Heimildir AFP herma að meðal þeirra sem ráðast átti á er talsmaður ríkisstjórnarinnar, Christophe Castaner og Jean-Luc Melenchon.

Talsmaður Melenchon gagnrýnir að forsetaframbjóðandinn fyrrverandi hafi ekki verið upplýstur um málið af hálfu lögreglunnar og að ósk hans um vernd þegar kosningabaráttan stóð yfir var hafnað.

Tíumenningarnir eru einnig taldir hafa ætlað sér að ráðast á flóttafólk og moskur í Frakklandi. 

Nisin var handtekinn skammt frá Marseille 28. júní eftir að hafa birt færslu á netinu um að hann ætlaði sér að ráðast á svarta, vígamenn, flóttamenn og úrþvætti. Heimildir innan lögreglunnar herma að Nisin, sem hafði komið sér upp vopnasafni og æfði skotfimi, hafi ætlað sér að fylgja hótunum sínum eftir.

Fylgst hafði verið Nisin um tíma eftir að bent var á hann sem umsjónarmann Facebook-síðu þar sem norski öfgamaðurinn Anders Behring Breivik var lofsunginn. Breivik framdi hryðjuverk árið 2011 í Noregi en hann drap 77 einstaklinga, flest fórnarlamba hans voru ungmenni sem tóku þátt í starfi ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert