Sagði aðskilnaðartilraunina óásættanlega

Filippus Spánarkonungur sagði aðskilnaðartilraunina vera óásættanlega.
Filippus Spánarkonungur sagði aðskilnaðartilraunina vera óásættanlega. AFP

Filippus Spánarkonungur var óvenju tilfinningasamur í ræðu sinni í dag. Sagði hann spænsku þjóðina standa frammi fyrir „óásættanlegri aðskilnaðartilraun“ Katalóníu. Krafðist konungur þess því næst að héraðið yrði áfram órjúfanlegur hluti Spánar.

„Við viljum ekki gefa upp á bátinn það sem við höfum byggt upp saman,“ sagði hann og bætti við að Spánn hefði sigrast „á mistökum fortíðar“. Vísaði Filippus þar í stjórnartíð einræðisherrans Francos.

„Síðustu áratugi hafa Spánverjar haldið sögu okkar áfram og virt þá ákvörðun ríkisvaldsins að lifa saman í lýðræðisþjóðfélagi,“ sagði konungur.

„Við höfum lifað saman og deilt velgengni og mistökum, sigrum og fórnum, sem hafa sameinað okkur í gleði og þjáningu. Því megum við ekki gleyma.“

Filippus fordæmdi sjálfstæðisbaráttu Katalóníubúa eftir kosninguna 1. október og sagði hana ólöglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert