Katalónía svipt sjálfsstjórn

Forsætisráðherra Spánar tilkynnti um ákvörðun ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi fyrir skömmu.
Forsætisráðherra Spánar tilkynnti um ákvörðun ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi fyrir skömmu. AFP

Ríkisstjórn Spánar hefur tekið ákvörðun um virkja 155. grein stjórnarskrárinnar og svipta Katalóníu sjálfstjórnarvaldi. Það kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar að ákveðið hefði verið að leysa upp stjórnvöld sjálfstæðissinna í Katalóníu og boða til kosninga til að koma veg fyrir að leiðtogi Katalóníu, Char­les Puig­demont, lýsi yfir sjálfstæði héraðsins líkt og hann hefur hótað.

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, greindi frá þessari ákvörðun eftir neyðarfund ríkistjórnarinnar í morgun. Hann sagði að ríkisstjórn ætti ekki annarra kosta völ eftir þá atburðarrás sem átt hefur átt sér stað í Katalóníu síðustu vikur.

Spænska þingið þarf nú að samþykkja aðgerðirnar og má búast við því að það verði gert á næstu dögum. Leiðtogi Sósíalistaflokksins greindi frá því í gær að flokkurinn myndi styðja aðgerðirnar.

Puigdemont mun flytja ávarp í kvöld

Þann 1. október síðastliðinn var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði héraðsins, þrátt fyrir mikla andstöðu spænskra stjórnvalda.

Rúm 40 prósent kosningabærra manna mættu á kjörstað, en niðurstaðan var afgerandi og yfir 90 prósent sögðu já við sjálfstæði Katalóníu. Puig­demont lýsti hins vegar ekki sjálfstæði heldur óskaði eftir viðræðum við stjórnvöld í Madríd. Þeim viðræðum var hafnað og yfirvöldum í Katalóníu settir þeir afarkostir að hætta öllum sjálfstæðistilburðum eða verða svipt sjálfstjórnarréttindum. Ekki var brugðist við því og er þetta niðurstaðan.

Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur verið dæmd ógild af stjórnlagadómstól Spánar.

Greint hefur frá því að Puigdemont muni ávarpa íbúa Katalóníu klukkan 21 að staðartíma, eða klukkan 19 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert