Vilja afmá Taj Mahal úr sögu Indlands

Taj Mahal er frægasta bygging Indlands en nú vilja þjóðernissinnaðir …
Taj Mahal er frægasta bygging Indlands en nú vilja þjóðernissinnaðir hindúar afmá hana úr sögu landsins. mbl.is/Einar Falur

Taj Mahal, eitt þekktasta kennileiti Indlands, á undir högg að sækja um þessar mundir. Ekki er nóg með að loftmengun sé að gera marmarann gulan og viðgerðarpallar skyggi á turna grafhýsisins heldur hefur rödd gagnrýnenda þess aldrei hljómað hærra, að sögn breska vefmiðilsins Guardian.

Á undanförnum mánuðum hafa Hindú-þjóðernissinnar á Indlandi komið af stað herferð með það að markmiði að afmá fjögurra alda gamla grafhýsið úr sögu landsins. Grafhýsið var reist í Agra í Uttar Pradesh á 17. öld af múslimska keisaranum Shah Jahan fyrir lík uppáhaldseiginkonu hans, en sú staðreynd að helsta kennileiti Indlands, þar sem meirihluti íbúa er hindúatrúar, hafi verið byggt af múslima hefur lengi valdið gremju.

Byggt með blóði og svita indverskra bænda og verkamanna

Raddir gagnrýnenda hafa valdið svo miklum usla að undanförnu að Yogi Adityanath, ríkisstjóri í Uttar Pradesh og þekktur gagnrýnandi grafhýsisins, fór í skipulagða ferð til Agra síðasta fimmtudag til þess að fullvissa fólk um að hýsið væri „einstök gersemi“ og að ríkisstjórn hans myndi skuldbinda sig varðveitingu þess. Hann sagði að þjóðin ætti ekki að dvelja á því hvers vegna, hvenær og hvernig grafhýsið hafi verið byggt. „Það sem skiptir máli er að það var byggt með blóði og svita indverskra bænda og verkamanna.“

Áður en Adityanath hafði verið kjörinn ríkisstjóri Uttar Pradesh í febrúar síðastliðinn var hann þekktur fyrir orðræðu gegn múslimum og hafði stungið upp á að taka upp ferðabann á fylgismenn íslams að fyrirmynd Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Í júní lét hann hafa það eftir sér að hann væri ánægður með að heiðursgestir landsins fengju ekki lengur líkan af Taj Mahal að gjöf því það „endurspeglaði ekki menningu landsins“.

„Blettur“ á indverskri menningu

Að baki deilnanna um Taj Mahal liggur slagurinn um fortíð og nútíð Indlands, en Hindú-þjóðernissinnar með forsætisráðherrann Narendra Modi innanborðs hafa aldrei haft meiri völd í landinu. Margir eru á þeirri skoðun að tímabilið þegar múslimskir konungar voru við völd í Indlandi hafi verið tímabil þrælahalds og eiga því erfitt með að sætta sig við minnisvarða tímabilsins.

Sangeet Som, liðsmaður Bharatiya Janata-flokksins sem er við völd í landinu, hefur gengið lengra en flestir og kallað Taj Mahal „blett“ á indverskri menningu sem byggt var af svikurum. Hann segir grafhýsið ekki eiga að vera hluta af indverskri sögu og að keisarinn sem byggði það hafi viljað þurrka út hindúa. „Ef þetta fólk var hluti af sögunni okkar er það mjög sorglegt og við munum breyta þessari sögu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert