Stígur á svið í þjóðarréttinum

Ungfrú Malasía mun klæðast þjóðarréttinum nasi lemak á sviði í …
Ungfrú Malasía mun klæðast þjóðarréttinum nasi lemak á sviði í Miss Universe-keppninni síðar í þessum mánuði. Ljósmynd/Facebook-síða Miss Universe Malaysia

Ungfrú Malasía hefur ákveðið að fara óhefðbundnar leiðir í klæðavali í keppninni Ungfrú alheimur (e. Miss Universe) sem fram fer síðar í þessum mánuði.

Í einum hluta keppninnar þurfa þátttakendur að vera þjóðlega klæddir. Í stað þess að klæðast hefðbundnum þjóðbúningi mun fulltrúi Malasíu, Samantha Katie James, klæðast kjól sem svipar til þjóðarréttarins nasi lemak.

Kjóllinn er hannaður af Brian Khoo og hafa Malasíubúar ýmist lýst undrun sinni á kjólnum eða eru himinlifandi með hann, enda ríkir hálfgert nasi lemak-æði í landinu, þar sem ýmis varningur, allt frá pizzum til smokka, er tengdur við þjóðarréttinn.

En hvað er nasi lemak? Um er að ræða hrísgrjónarétt sem er eldaður með kókosmjólk og er hann yfirleitt borinn fram með steiktu eggi, gúrkusneiðum, steiktum ansjósum og hnetum. Mikilvægasti hluti réttarins er svo væn klípa af sambal, sem er sterk kryddblanda. Rétturinn er vanalega vafinn inn í bananalauf og borðaður í morgunmat.

Bananalaufin eru fyrirferðarmikil í kjólnum og mátti minnstu muna að Samantha hefði kramið laufin, sem koma eins og vængir út frá kjólnum, í dyragætt þegar kjóllinn var kynntur á blaðamannafundi í Kuala Lumpur í gær. Á fundinum fór hönnuður kjólsins vandlega yfir hönnunarferlið og vinnustundirnar 400 sem fóru í að sauma kjólinn.

Keppnin um Miss Universe 2017 fer fram í Las Vegas 26. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert