Óframfærið barn sem varð fjöldamorðingi

AFP

Takahiro Shiraishi, Japani sem hefur játað að hafa myrt níu manns á baðherberginu heima hjá sér og brytjað niður lík þeirra, var svo rólegur og fyrirferðarlítill í skóla að fyrrverandi skólasystkini muna vart eftir honum. 

Shiraishi, sem er 27 ára gamall, var handtekinn í gær og hefur játað að hafa myrt níu ungmenni í íbúð sinni. Fjölmiðlar í Japan hafa birt myndir af ósköp venjulegum ungum manni sem bjó í látlausri íbúð í rólegu úthverfi Tókýó. 

Hafa fundið um 240 líkamsparta

Að morgni hrekkjavöku afhjúpaði lögreglan hrylling innan veggja heimilis fjöldamorðingjans. Níu sundurlimuð lík þar sem allt að 240 líkamshlutum hafði verið komið fyrir í kæliboxum og verkfærakistum. Til þess að fela lyktina hafði hann hellt kattasandi yfir boxin. 

Fólk sem býr í hverfinu man eftir Shiraishi sem rólegu barni sem átti í eðlilegum samskiptum við nágranna sína. Í skóla voru einkunnir  hans langt frá því að vera framúrskarandi en hann skar sig engan veginn úr fjöldanum.

„Hann hafði gaman af íþróttum og körfubolta og var góður hlustandi miklu frekar en að tjá sig sjálfur,“ segir fyrrverandi skólabróðir hans. Annar skólabróðir segir á Twitter að Shiraishi hafi verið svo venjulegur og óframfærinn að flest bekkjarsystkina hans myndu aldrei þekkja hann á mynd þegar fréttir bárust af glæpum hans. 

Strax í grunnskóla kom í ljós að eitt af því sem Shiraishi hafði mikla ánægju af var að taka þátt í „kæfingarleik“. Það er þegar félagarnir skemmtu sér við að þrengja að öndunarvegi á hver öðrum.  

Fjölmiðillinn  Mainichi Shimbun greinir frá því að tvö líkanna beri þess merki að viðkomandi hafi verið kyrktur. Annar var með brotin bein í hálsi og annar húðblæðingar sem yfirleitt tengjast kyrkingu.

Eftir útskrift úr framhaldsskóla árið 2009 hóf Shiraishi störf í matvörumarkaði en hætti eftir tvö ár. Þá hóf hann störf sem útsendari vændishúsa í  Kabukicho-hverfi Tókýóborgar. Fólst starf hans einkum í því að reyna að tæla ungar konur til starfa í klúbbum í hverfinu.

Í febrúar var hann handtekinn og dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að tæla unga konu til starfa hjá kynlífsverslun þrátt fyrir að hann vissi að hún yrði neydd í vændi. 

Nokkrir hafa ritað færslur á Twitter þar sem þeir lýsa vanþóknun sinni á Shiraishi og segja hann ógeðslegt viðrini. Hafði meðal annars starfsbróðir hans varað við honum á netinu. 

Shiraishi var í nánu sambandi við föður sinn en móðir hans og yngri systir fluttu út af heimilinu fyrir nokkru.

Ung kona sem átti í ástarsambandi við hann þangað til sumarið 2016 lýsir honum sem ljúfum manni sem aldrei var vondur við konur. 

Í júní sagði Shiraishi við föður sinn að hann sæi ekki lengur tilganginn með lífinu og í ágúst flutti hann inn í íbúðina þar sem hann framdi voðaverkin.  Hann setti upp nokkra Twitter- aðganga þar sem hann auglýsti sig sem böðul og hafði samband við ungar konur í sjálfsvígshugleiðingum. Á hann að hafa sagt lögreglu að hann hafi drepið fórnarlömb sín strax og hann hitti þau og síðan hafi hann aðeins „unnið með líkin“ til þess að fela glæpi sína. 

Það tók hann þrjá daga að hluta niður fyrsta líkið en eftir það lauk hann því á innan við degi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert