22 ára dæmdur í 22 ára fangelsi

AFP

Heittrúaður 22 ára gamall Ástrali var í dag dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir að undirbúa hryðjuverkaárásir í Sydney.

Sulayman Khalid játaði við réttarhöldin að hafa ætlað sér að gera árásir á stjórnarbyggingar í borginni en hann var handtekinn undir lok árs 2014 í aðgerðum lögreglu í Sydney og Brisbane sem beindust gegn hryðjuverkamönnum.

Fjórir aðrir, þar á meðal unglingur, voru einnig dæmdir í héraðsdómi í dag og fengu þeir níu til 18 ára dóma fyrir svipuð eða minni brot. Má þar nefna að útbúa skjal sem tengdist undirbúningi hryðjuverks. 

Stjórnvöld í Ástralíu hafa verulegar áhyggjur af öfgasinnum í landinu og segja að komið hafi verið í veg fyrir 13 hryðjuverkaárásir á undanförnum árum. En nokkrar hafa verið gerðar, til að mynda árið 2015 þegar fimmtán ára gamall drengur myrti starfsmann lögreglunnar í Sydney. Pilturinn lést í skotbardaga við lögregluna í kjölfarið.

Þegar dómari kvað upp dóm sinn í morgun sagði hann Khalid aðhyllast Wahhabi-Salafisma. Hann hefði opinberlega lýst yfir stuðningi við vígasamtökin Ríki íslams og að ljóst væri að hann væri ofbeldisfullur og tilbúinn í heilagt stríð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert