Harmleikur í Sydney

Frá skólanum í morgun.
Frá skólanum í morgun. AFP

Tveir ungir drengir létust og þrjú börn eru mjög illa slösuð eftir að bifreið var ekið inn í kennslustofu þeirra í Sydney. Vitni og sjúkralið segja að algjör ringulreið hafi skapast á vettvangi og blóð út um allt.

Harmleikurinn varð í Banksia Road-grunnskólanum en 52 ára gömul kona missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún ók inn í skólabyggingu skömmu eftir að kennslustund hófst.

Lögreglan yfirheyrði konuna og tók úr henni blóðsýni til að rannsaka hvort hún hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Samkvæmt upplýsingum AFP-fréttastofunnar var hún að keyra barn í skólann þegar óhappið varð. Ekki er talið að hún hafi ekið viljandi á.

Að sögn lögreglu voru fimm börn flutt með hraði á sjúkrahús en tvö þeirra, drengir, létust þar. Drengirnir voru átta ára gamlir. 17 börn og kennari voru með minniháttar áverka sem gert var að á staðnum.

Bráðaliðar segja að aðkoman á slysstað hafi verið skelfileg. Bæði hafi fjölmargir verið slasaðir auk þess sem flestir ef ekki allir voru í áfalli. Einhverjir foreldrar urðu vitni að harmleiknum þar á meðal einn faðir sem tók þátt í því með fleiri foreldrum að lyfta bifreiðinni upp til þess að koma öðrum drengnum, sem síðan lést, til bjargar. 

Í viðtali við Sydney Daily Telegraph lýsir hann aðstæðum á vettvangi og hvernig þau hafi með samstilltu átaki náð drengnum undan bifreiðinni á meðan annar drengur lá stórslasaður rétt hjá kallandi á móður sína.

„Hann sagði ég vil fá mömmu mína. En því miður náði hún ekki til hans áður en hann dó,“ segir faðirinn sem var algjörlega miður sín þegar fjölmiðlar ræddu við hann á slysstað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert