Líklega kjarnorkuslys sem enginn kannast við

Kjarnorkuverksmiðja. Mynd úr safni.
Kjarnorkuverksmiðja. Mynd úr safni. AFP

Geislavirkt ský breiddi úr sér yfir Evrópu á síðustu vikum. Það bendir til þess að slys hafi orðið í kjarnorkuverksmiðju í Rússlandi eða Kasakstan síðustu vikurnar í september. Þetta segir franska kjarnorkuöryggisstofnunin IRSN. Rússnesk yfirvöld kannast ekki við slíkt. Guardian greinir frá. 

Slysið hefur hvorki haft áhrif á heilsu fólks né umhverfið. Slysið hefur líklega orðið í geislavirkum kjarnaofni, í miðstöð fyrir geislavirk lyf eða þar sem unnið er með geislavirkt eldsneyti. 

IRSN hefur ekki náð að staðsetja nákvæmlega hvar mögulegt slys hafi orðið en byggt á veðurkerfi og vindátt er líklegast að atvikið hafi átt sér stað á milli Suður-Úralfjalla og árinnar Volgu. Spjótin beinast því að Rússlandi eða Kasakstan.    

„Rússnesk yfirvöld hafa greint frá því að þau viti ekki til þess að slíkt slys hafi orðið á þeirra landsvæði,“ segir Jean-Marc Peres, forstjóri IRSN. Ekki hefur náðst samband við Kasakstan til að kanna stöðuna þar.  

Hátt hlutfall af geislavirka efninu ruthenium-106 hefur greinst víða í Evrópu. Efnið finnst ekki í náttúrunni. Líftími efnisins er um hálft ár en það er notað til dæmis í krabbameinsmeðferð við augnkrabbameini hjá fólki. Það getur einnig losnað þegar kjarnaklofið eldsneyti er endurunnið.

Rússnesk yfirvöld kannast ekki við að það hafi orðið kjarnorkuslys …
Rússnesk yfirvöld kannast ekki við að það hafi orðið kjarnorkuslys í verksmiðjum þeirra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert