Dómari gortaði sig af afrekum í ástarlífinu Facebook

Bygging hæstaréttar Ohio í Columbus-borg.
Bygging hæstaréttar Ohio í Columbus-borg.

Kjósendur í Ohio eru í áfalli eftir að þekktur hæstaréttardómari, Bill O‘Neill, sem einnig er frambjóðandi Demókrata til ríkisstjóra, gortaði sig af því á Facebook að hafa verið kynferðislega náinn að um það bil fimmtíu „mjög aðlaðandi konum“. BBC greinir frá.

Í viðtali þar sem hann kom fram í kjölfarið varði hann færsluna og jafnframt öldungadeildarþingmann sem hafði verið myndaður þar sem hann káfaði á sofandi konu. Demókratar í Ohio hafa fordæmt orð dómarans.

Í færslunni, sem O‘Neill birti síðdegis í dag, sagði meðal annars: „Nú þegar varðhundar réttlætisins vilja að Al Franken öldungadeildarþingmaður gjaldi fyrir gjörðir sínar þá held ég að tími sé kominn til að einhver tjái sig fyrir hönd allra gagnkynhneigðra karla. Hann sagði jafnframt að tilgangur færslunnar væri að spara andstæðingum sínum tíma við rannsóknarvinnu.

O'Neill taldi sig þurfa að tala fyrir hönd allra gagnkynhneigðra …
O'Neill taldi sig þurfa að tala fyrir hönd allra gagnkynhneigðra karlmanna.

„Á síðastliðnum fimmtíu árum hef ég verið kynferðislega náinn um fimmtíu mjög aðlaðandi konum,“ skrifaði hinn 70 ára gamli O‘Neill. Þá lýsti hann tveimur kvennanna sem hann hafði átt þessi kynferðislegu samskipti við.

„Frá yndisfögrum einkaritara öldungadeildarþingmannsins Bob Taft, sem var fyrsta ástin í lífi mínu og við nutum ásta á ástríðufullan hátt á hlöðuloftinu heima hjá foreldrum hennar,“ skrifaði hann um kynni sín af einni konunni.

Í áðurnefndu viðtali staðfesti O‘Neill að hann hefði sjálfur skrifað færsluna. Þar tók hann líka fram að hann væri ekki alveg viss hvort talan fimmtíu væri rétt, enda hefði hann ekki verið að telja.

Dómarinn sagði að honum þætti það ekki óviðeigandi fyrir mann í sinni stöðu að opinbera svo nákvæmar lýsingar á ástarlífi sínu.

Færslan hefur eðlilega vakið mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum en skiptar skoðanir eru á henni. Kona ein kallaði hann til að mynda ónytjung á meðan karlmaður sagði að dómarinn hefði tryggt sér atkvæði hans í kjörinu um ríkisstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert