Öryggisverðir í norskum grunnskóla

Niðará rennur gegnum Þrándheim. Skólastjóri grunnskóla í borginni sér ekki …
Niðará rennur gegnum Þrándheim. Skólastjóri grunnskóla í borginni sér ekki önnur úrræði tiltæk en að leita til öryggisgæslufyrirtækis til að fyrirbyggja ofbeldi í skólanum. Mynd af Wikipedia

Grunnskóli í Þrándheimi hefur leigt inn verði frá öryggisgæslufyrirtæki eftir fjölda ofbeldisatvika við skólann það sem af er vetri en þar tók nemandi kennara hálstaki og annar var tekinn fyrir hnífaburð í öðrum skóla borgarinnar eftir að hafa haft uppi hótanir. Eins hefur lögregla lýst áhyggjum sínum af ofbeldismyndböndum sem nemendur skóla í Ósló og Akershus hafa tekið upp undanfarið og birt á samskiptamiðlinum Snapchat.

„Verðirnir eru á staðnum svo að hvort tveggja nemendur og kennarar upplifi sig örugga. Kennarar hafa ekki leyfi til að beita líkamlegu valdi til að koma nemanda burt af svæði þar sem nærveru hans er ekki óskað,“ útskýrir skólastjóri skólans í samtali við Adresseavisen en enginn þeirra fjölmiðla sem fjallað hafa um málið nafngreina grunnskólann.

Fyrir rúmri viku brást lögregla við árásarboðum frá skólanum og sendi merkta og ómerkta lögreglubíla með forgangi þangað en þá hafði nemandi veist að kennara, slegið hann og tekið hann hálstaki. Adresseavisen greindi ítarlega frá því máli.

Var með hótanir og reyndist bera tvo hnífa

Trond Volden, aðgerðastjóri lögreglunnar í umdæmi Þrændalaga, upplýsir að nemandinn hafi verið færður á lögreglustöð og barnaverndarnefnd kölluð til. Þá muni nemandinn einnig hitta fyrir sérstakan forvarnahóp sem lögreglan á svæðinu heldur úti en hann sinnir ungum brotamönnum sem komnir eru á refilstigu.

Í sömu viku hafði nemandi í öðrum skóla í Þrándheimi uppi hótanir við samnemanda sinn og voru þær þess eðlis að rétt þótti að kalla til lögreglu til að ganga úr skugga um hvort nemandinn bæri vopn. Fundust þá við leit á honum tveir hnífar og lítur lögregla málið mjög alvarlegum augum en í september stakk tæplega tvítugur piltur 16 ára stúlku tíu sinnum á lóð framhaldsskóla í Lier í Buskerud eins og mbl.is greindi frá.

Norska dagblaðið VG hefur, ásamt fleiri norskum fjölmiðlum, nýlega fjallað um slagsmálamyndskeið sem nemendur við skóla í Ósló og nágrannafylkinu Akershus hafa tekið upp á síma sína og birt á samskiptamiðlinum Snapchat. Í frétt um öryggisverðina í skólanum í Þrándheimi birtir VG samsett myndskeið þar sem meðal annars má sjá múg ungmenna ráðast á tvo lögreglumenn og mann lemja annan niður með skóflu.

Skólastjóri skólans, sem fengið hefur öryggisverðina til liðs við sig, útskýrði málið í bréfi til allra foreldra barna í skólanum og greindi þar frá því að verðirnir yrðu til staðar í einhvern tíma. „Svo virðist sem nemendur þurfi tíma til að ná áttum eftir allt sem hefur gengið á í haust,“ skrifar skólastjóri meðal annars í bréfi sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert