Mætir ekki á leiðtogafund Evrópusambandsins

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefur verið við völd frá árinu …
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefur verið við völd frá árinu 1994. AFP

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, mun ekki mæta á leiðtogafund Evrópusambandsins í vikunni þrátt fyrir að hafa verið formlega boðið eftir að refsiaðgerðum sambandsins gegn honum var aflétt. Í stað forsetans mætir Vladimir Makei, utanríkisráðherra landsins, á fundinn.

„Þetta er í fyrsta skipti sem honum er sent formlegt boð í eigin persónu. Honum var ekki boðið á fyrri fundi leiðtoganna því hann var á lista Evrópusambandsins yfir einstaklinga sem refisaðgerðir beindust gegn en þeim hefur verið aflétt,“ segir talsmaður Evrópusambandsins við AFP.    

Utanríkisráðherra Hvíta-Rússlands segir boðið á fundinn merki um breytingar í rétta átt í samskiptum landsins við Evrópusambandið eftir langt tímabil ósættis. Hann greindi jafnframt ekki frá því hvers vegna Lukashenko mætti ekki sjálfur á fundinn.

Á síðasta ári aflétti Evrópusambandið refsiaðgerðum gegn 170 einstaklingum í Hvíta-Rússlandi, þar á meðal Lukashenko, í von um að mannréttindamál í landinu þokist í rétta átt. 

Þess má geta að Alexander Lukashenko, forseti landsins, hefur jafnan verið kallaður „síðasti ein­ræðis­herra Evr­ópu“ en hann hefur stýrt landinu með járnhnefa frá árinu 1994. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert