Lögsóttir í nafni þjóðaröryggis

AFP

Venjulegir notendur samfélagsmiðla, tónlistarmenn, blaðamenn og jafnvel leikbrúðustjórnendur hafa verið lögsóttir í nafni þjóðaröryggis á Spáni, að því er segir í nýrri skýrslu Amnesty International. 

Ný skýrsla frá Amnesty International sýnir fram á að ráðist er gegn tjáningarfrelsinu á Spáni þar sem fólk hefur í auknum mæli orðið fyrir barðinu á harkalegum lögum sem banna upphafningu hryðjuverka eða niðurlægingu fórnarlamba hryðjuverka.

„Skýrsla Amnesty International, Tweet…if you dare: How counter-terrorism laws restrict freedom of expression in Spain, sýnir að venjulegir notendur samfélagsmiðla og að auki tónlistarmenn, blaðamenn og jafnvel leikbrúðustjórnendur hafa verið lögsóttir í nafni þjóðaröryggis. Þetta hefur skapað umhverfi þar sem fólk óttast í sívaxandi mæli að tjá óhefðbundnar skoðanir eða segja umdeilda brandara,“ segir í tilkynningu.

Amnesty International

Allir þeir sem teljast hafa upphafið hryðjuverk eða niðurlægt fórnarlömb hryðjuverka eða ættingja þeirra samkvæmt grein 578 í spænskum hegningarlögum, eins óljóst og það er skilgreint, standa frammi fyrir sektum, útilokun frá störfum hjá hinu opinbera og jafnvel fangelsisvist. Fjöldi fólks sem hefur verið ákært fyrir brot á lagagreininni hefur aukist úr þremur frá árinu 2011 í 39 árið 2017 og tæplega 70 einstaklingar hafa verið sakfelldir á síðustu tveimur árum, segir í skýrslunni.

Fangelsdómur fyrir brandara

Frá árinu 2014 hafa samræmdar lögregluaðgerðir orðið til þess að fjöldi fólks hefur verið handtekinn fyrir færslur á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega á Twitter og Facebook.  Einn karlmaður sem fékk eins árs skilorðsbundinn dóm vegna 13 tísta sagði Amnesty International: „Markmiðið er að búa til andrúmsloft þar sem allir ritskoða sjálfa sig. Það tókst með mig.“

Amnesty International

Cassandra Vera, 22 ára nemandi, fékk eins árs skilorðsbundinn dóm árið 2017 fyrir að niðurlægja fórnarlömb hryðjuverka með því að setja brandara á Twitter um Luis Carrero Blanco sem var myrtur fyrir 44 árum í sprengjuárás ETA þar sem bíllinn hans lyftist 20 metra í loftið. „ETA hafði ekki aðeins stefnu um embættisbíla heldur einnig um geimferðir,“ sagði hún í gríni. Dómur hennar varð til þess að hún missti háskólastyrk og var bannað að vinna á vegum hins opinbera næstu sjö árin.

Á meðal þeirra sem komu Cassöndru til varnar var frænka Luis Carrero Blanco sem sagði að hún „óttaðist samfélag þar sem tjáningarfrelsið gæti leitt til fangelsunar.“ Þrátt fyrir að yfirlýsing hennar hafi verið hluti af vörn Cassöndru þá hafði það engin áhrif á málið því lögin gilda óháð skoðunum fórnarlamba hryðjuverka eða ættingja þeirra. Fyrr í þessum mánuði varð þó jákvæð þróun þar sem hæstiréttur Spánar felldi niður sakfellingu Cassöndru.

Þó að ógn hryðjuverka sé raunveruleg og að í ákveðnum tilfellum geti verið lögmætar ástæður til að skerða tjáningarfrelsið til að vernda þjóðaröryggi þá eru spænsku lögin gegn upphafningu hryðjuverka og niðurlægingu fórnarlamba hryðjuverka hindrun fyrir listræna tjáningu þar sem þau eru víðtæk og óljós.

Í desember voru tólf rapparar úr hópnum „La Insurgencia“ sektaðir, dæmdir í meira en tveggja ára fangelsi og bannaðir frá vinnu hjá hinu opinbera fyrir rapptexta sem var talinn upphefja vopnaða hópinn GRAPO. Þeir hafa áfrýjað dómnum og eru hluti af hópi listamanna sem hefur verið lögsóttur vegna lagagreinarinnar.

Lagagreinin 578 var gerð víðtækari árið 2015 til að bregðast við árásum í París og þeirri ógnun sem talin var stafa af alþjóðlegum hryðjuverkum en meirihluti mála sem lögin hafa verið notuð tengjast ETA og GRAPO, sundruðum eða óvirkum vopnuðum hópum innan Spánar.

Rapp er ekki glæpur

Tilskipun Evrópusambandsins gegn hryðjuverkum sem á að innleiða í Evrópu í september 2018 tekur upphafningu sem dæmi um tjáningu sem geti talist glæpsamleg. Lærdómur frá Spáni  þarf að vera að óljós skilgreind brot eins og upphafning hryðjuverka eða niðurlæging fórnarlamba hryðjuverka stefnir réttinum til tjáningarfrelsis í hættu.

„Spánn er táknrænn fyrir þá þróun sem á sér stað víðsvegar um Evrópu þar sem verið er að setja skorður á tjáningarfrelsi undir yfirskini þjóðaröryggis og svipta réttindi til að verja þau, segir Eda Seyhan herferðarstjóri Amnesty International gegn hryðjuverkum, í tilkynningu.

„Rapp er ekki glæpur, færsla með brandara er ekki hryðjuverk og brúðuleikrit ætti ekki að leiða til fangelsisvistar. Stjórnvöld ættu að styðja við réttindi fórnarlamba hryðjuverka frekar en að skerða málfrelsi. Afnema þarf þessi harkalegu lög og fella verður niður allar ákærur gegn þeim sem hafa einungis nýtt sér tjáningarfrelsi sitt á friðsamlegan máta,“ segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert