Milduðu dóm sænskra barnaníðinga

AFP

Áfrýjunardómstóll hefur mildað dóm yfir tveimur sænskum bræðum, sem voru fundir sekir um að hafa nauðgað og brotið kynferðislega gagnvart fimm börnum í yfir eitt þúsund skipti, vegna þess að ekki væri hægt að sanna öll brot þeirra.

Bræðurnir voru dæmir fyrir kynferðisbrot gagnvart börnunum fimm, sem voru á aldrinum þriggja til 14 ára, í yfir eitt þúsund skipti á átta ára tímabili.

Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að börnin sem brotið var gegn höfðu orðið fyrir einelti í skóla eða bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður. Bræðurnir hafi nýtt sér varnarleysi þeirra, boðið þeim upp á tölvuleiki, eiturlyf, áfengi eða peninga, að því er fram kom við héraðsdóminn í Ångermanland í desember. Jafnframt fengu þeir börnin til þess að taka þátt í hlutverkaleikjum sem gengu út á kynlíf. 

Eldri bróðirinn var í héraði dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað börnum í meira en 580 skipti auk þess að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi af öðru tagi í yfir 500 skipti. Er þetta þyngsti dómur sem fallið hefur í slíku máli í Svíþjóð en yngri bróðirinn var dæmdur í tólf ára fangelsi. Meðal annars vegna þess að hann var dæmdur fyrir færri brot auk þess sem hann var yngri en 21 árs þegar hluti brotanna var framinn. Bræðurnir eru 38 ára og 35 ára í dag.

Áfrýjunardómstóllinn í Norrland staðfesti í gær að mennirnir hafi framið hluta af þeim brotum sem þeir voru dæmdir fyrir en ekki væri hægt að sanna á þá öll brotin sem þeir voru dæmdir fyrir í héraði. Bræðurnir, sem eru búsettir í Sollefteå, voru í gær dæmdir í níu ára og sjö ára fangelsi en þeir höfðu báðir áfrýjað niðurstöðu héraðsdóms.

Þegar bræðurnir voru handteknir í fyrra fann lögregla yfir 250 klukkustundir af myndskeiðum og yfir fimm þúsund myndir af börnum tengdum kynferðislegu ofbeldi á heimili þeirra. Hluti myndefnisins var af fórnarlömbum þeirra, börnunum fimm.

Í dómnum frá því í gær kemur fram að mikilvægt sé að taka tillit til þess að engu ofbeldi var beitt í tengslum við glæpina. Jafnframt að börnin hafi ekki verið mjög ung að árum, fyrir utan eitt, þegar brotin voru framin.

Brotin voru samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms framin á árunum 2001 til 2009 í Trelleborg og Sollefteå þar sem bræðurnir búa í dag. Misnotkunin var gerð eðlileg og ef börnin viku sér undan fengu þau kannabis, áfengi og peninga gegn kynlífi.  Eitt af börnunum lýsti eldri manninum sem fyrirmynd sinni í lífinu og hetju. Hann vildi alls ekki missa þennan vin sinn og sér liði illa ef hann neitaði honum um kynlíf. Annar drengur greindi frá því að hann hafi orðið fyrir einelti í skóla og skjól hans hafi verið á heimili bræðranna. 

Frétt sænska ríkisútvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert