Frægur fjallalæknir lést í snjóflóði

Mont Blanc
Mont Blanc AFP

Franskur bráðalæknir, sem gekk undir nafninu Lóðrétti læknirinn vegna vinnu sinnar í fjalllendi lést í snjóflóði í Ölpunum í dag, að sögn björgunarmanna. Emmanuel Cauchy var í hópi skíðamanna sem lenti í snjóflóði á Rauðu tindnunum (Aiguilles Rouges) gegnt Mont Blanc á mörkum Frakklands, Ítalíu og Sviss.

Cauchy, sem var frægur fjallagarpur í Frakklandi, hafði skrifað okkrar bækur og greinar í dagblöð um fjallabjörgun undir skáldanafninu Lóðrétti læknirinn. Hann var stofnandi björgunarsveitarinnar INFREMMONT og hafði meðal annars hjálpað frönsku fjallgöngukonunni Elisabeth Revol sem var bjargað úr sjálfheldu af fjallinu Nanga Parbat í Pakistan í janúar.

Revol sagðist „orðlaus“ vegna frétta af andláti Cauchys. „Klifurheimurinn hefur misst hæfasta lækni sinn, frábæran mann sem bætti fjallalækningar með aðferðum til að meðhöndla kal,“ sagði Revol sem þjáðist sjálf af kali í sneypuförinni í janúar.

Þrír til viðbótar, hið minnsta, eru slasaðir eftir snjóflóðið en eru ekki í lífshættu að sögn lögreglu á svæðinu.

Spænska klifurstjarnan Kilian Jomet vottaði Cauchy einnig virðingu sína á Twitter í dag en hann á meðal annars heimsmet í hröðustu för upp Mont Blanc. „Sorglegur dagur. Hvíl í friði Manu. Klárlega sá læknir sem vissi mest um há fjöll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert