Ákærður fyrir njósnir í Svíþjóð

Maðurinn er sakaður um að hafa njósnað um Tíbeta sem …
Maðurinn er sakaður um að hafa njósnað um Tíbeta sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Svíþjóð og Noregi. AFP

Tæplega fimmtugur Kínverji var ákærður fyrir njósnir í Svíþjóð í dag. Maðurinn er sakaður um að hafa safnað upplýsingum um flóttafólk frá Tíbet í Svíþjóð og Noregi fyrir kínversk yfirvöld. Hann á yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

Í ákæru kemur fram að Dorjee Gyantsan hafi laumað sér inn í samfélag Tíbeta til þess að safna persónulegum upplýsingum um þá sem og stjórnmálaafskipti þeirra fyrir kínversk yfirvöld gegn peningagreiðslu.

Lögmaður hans, Mikael Soderberg, segir að skjólstæðingur hans neiti öllum sakargiftum. Dorjee fékk dvalarleyfi sem flóttamaður í Svíþjóð árið 2000 og þóttist vera stuðningsmaður sjálfstæðis Tíbet. Hann mætti á mótmælafundi Tíbeta gegn Kína í Noregi og fjallaði um heimsókn Dalai Lama til Noregs undir fölsku flaggi með því að þykjast vera blaðamaður hjá riti sjálfstæðissinna. 

Talið er að njósnirnar hafi staðið yfir frá því í júlí 2015 til febrúar 2017 en þá var hann handtekinn. 

Um 130 Tíbetar búa í Svíþjóð. Telja saksóknarar að Dorjee hafi ítrekað átt fundi með sendiráðsstarfsmönnum Kína í Póllandi til þess að koma upplýsingum á framfæri og fengið fyrir það greitt þúsundir Bandaríkjadala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert