ESB skoðar alþjóðlegar viðræður um bílatolla

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og Donald Trump Bandaríkjaforseti funduðu í …
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og Donald Trump Bandaríkjaforseti funduðu í Hvíta húsinu á mánudag. AFP

Embættismenn innan Evrópusambandsins eru með til skoðunar að boða til viðræðna við helstu bílaframleiðsluríki heims til að koma í veg fyrir umfangsmikið viðskiptastríð við Bandaríkin. Þetta hefur miðillinn Financial Times eftir ónafngreindum diplómötum frá Brussel.

Hugmyndin er til skoðunar hjá ESB-liðum nú í aðdraganda fundar Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, með Donald Trump Bandaríkjaforseta síðar í mánuðinum.

Embættismennirnir þrír, sem rætt var við, segja úttekt hafna hjá framkvæmdastjórninni um hvort fýsilegt sé að boða Bandaríkin, Suður-Kóreu og Japan til viðræðna. Ef af samkomulagi yrði myndu aðilar samkomulagsins lækka tolla á bifreiðar sem fluttar eru milli ríkjanna.

Donald Trump hefur verið gagnrýninn á viðskiptasamband Bandaríkjanna og ESB, og raunar flestra annarra, og hefur ítrekað lýst því yfir að Evrópusambandið komi illa fram við Bandaríkin þegar kemur að viðskiptum. 

Hefur hann máli sínu til stuðning vísað til 10% tolla sem ESB leggur á bandaríska bíla, en sambærilegir tollar Bandaríkjamanna á evrópska bíla eru 2,5%. Fulltrúar Evrópusambandsins hafa á móti bent á að forsetinn líti fram hjá mörgum vöruflokkum þar sem Bandaríkjamenn tollaleggja evrópskan varning meira en ESB tollaleggur bandarískan, og á það til dæmis við um pallbíla.

Eftir að Evrópusambandið svaraði ál- og stáltollum Bandaríkjanna með tollalagningu á ýmsan bandarískan varning hefur Bandaríkjaforseti hótað að leggja 20% toll á evrópska bíla.

Leiðtogar ESB hafa áður útilokað að hefja einhliða viðræður við Bandaríkin um tollalagningar og þess í stað heitið að verja hagkerfi sambandsins fyrir tollastríði Bandaríkjastjórnar. Einn diplómati frá ESB-ríki sagði hugmyndina um að gera sérstakan samning sem er bundinn við bílamarkaðinn „við fyrstu sýn valda töluverðum áhyggjum“ einkum þar sem bandalagið hefði samþykkt að ræða ekki opnun markaða við Bandaríkin fyrr en Trump afléttir viðskiptahindrunum sem hann hefur lagt á síðustu mánuði, einkum ál- og stáltollunum.

Umræður um opnun markaða þyrftu að „vera Evrópusambandinu í heild til hagsbóta, ekki aðeins nokkrum ríkjum,“ segir hann og vísar til Þýskalands, hvers bílaiðnaður gæti fengið högg ef til nýrra tolla Bandaríkjanna kæmi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert