Skrúfar fyrir fjármagn til sjúkrahúsa í A-Jerúsalem

Trump vill nýta fjármagnið í önnur brýnni verkefni.
Trump vill nýta fjármagnið í önnur brýnni verkefni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að nýta eigi 25 milljónir dala (sem samsvarar um 2,8 milljörðum kr), sem höfðu verið eyrnamerktar fyrir Palestínumenn sem er hjúkrað á sjúkrahúsum í Austur-Jerúsalem, í önnur verkefni. Þetta er liður í endurskoðun á bandarískri hjálparaðstoð. 

Frá þessu greindi talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins. 

Trump óskaði eftir endurskoðun á aðstoð Bandaríkjanna til handa Palestínumönnum fyrr á þessu ári til að tryggja að verið væri að nýta fjármagnið í þágu bandarískra hagsmuna og bandarískra skattgreiðenda. 

Talsmaður ráðuneytisins segir að fjármagnið verði notað í önnur verkefni sem hafi meiri forgang. 

Fram kemur á vef Reuters að þetta sé enn ein aðgerð ríkisstjórnar Trumps sem beinist gegn Palestínumönnum. Áður hefur Trump viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels, sem hefur reitt marga Palestínumenn til reiði, sem og flutt sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael frá Tel Aviv til Jerúsalem. 

Það var þvert á fyrri stefnu bandarískra stjórnvalda og leiddi til þess að leiðtogar Palestínumanna ákváðu að sniðganga friðarumleitanir á svæðinu sem Jared Kushner, ráðgjafi Trumps og tengdasonur, fór fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert