Fyllti jarðgöng af laxi

Full jarðgöng af laxi í Voss á föstudagskvöldið og kirfilega …
Full jarðgöng af laxi í Voss á föstudagskvöldið og kirfilega tjónaður gangaveggur. Hvorki ökumaður né aðrir vegfarendur urðu fyrir líkamstjóni við áreksturinn. Ljósmynd/Vegagerðin

Óvenjuleg sjón blasti við fyrstu lögreglumönnum sem komu á vettvang undir miðnætti á föstudag þar sem ökumaður stórrar vörubifreiðar með tengivagn hafði ekið utan í vegg Stalheims-ganganna í Voss í Hörðalandi við vesturströnd Noregs með 19 tonn af laxi í farmrými sínu og þakti fiskurinn rúmlega 100 metra langan kafla í göngunum.

„Við vorum upplýst um að í bifreiðinni voru 19 tonn af laxi,“ sagði Lars Geitle, aðgerðastjóri lögreglunnar á staðnum, í samtali við Bergens Tidende. „Slökkviliðið segir okkur að megnið af laxinum sé enn þá um borð í vörubílnum, við vitum ekki hve mikið það er sem liggur í göngunum,“ sagði hann enn fremur en önnur hlið tengivagns bifreiðarinnar rifnaði hreinlega upp þegar vagninn skall á veggnum.

Dagblaðið VG fjallar einnig um laxatvikið og segir göngin hafa verið lokuð allri umferð langt fram á nótt á meðan viðbragðsaðilar hreinsuðu þann bleika af veginum en einnig varð töluvert tjón á klæðningu og veggnum sjálfum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þá er tengivagn bifreiðarinnar stórskemmdur eftir áreksturinn.

Frode Koltveit hjá lögreglunni í vesturumdæminu sagði Bergens Tidende að ökumaðurinn hefði sloppið með skrekkinn og ekki hlotið líkamstjón af en eðlilega hefði maðurinn verið felmtri sleginn eftir atvikið. „Það er svo mikill fiskur hérna að við þurfum líklega vinnuvél til að moka honum upp,“ sagði Koltveit við BT þar sem hann var staddur á vettvangi undir miðnætti á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert