Þúsundir neyddar í hjónaband í Kína

Konur úr minnihlutahópi rohingja-múslima í bíl lögreglu í bænum Kyauktan …
Konur úr minnihlutahópi rohingja-múslima í bíl lögreglu í bænum Kyauktan í Búrma. Mynd úr safni. AFP

Þúsundum kvenna og stúlkna í viðkvæmri stöðu er smyglað frá norðurhluta Búrma og til Kína þar sem þær eru þvingaðar í hjónaband. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar. 

Í Kína eru 33 milljónum færri konur en karlar. Skýringin er sú að áratugum saman var hjónum bannað að eiga fleiri en eitt barn nema í undantekningartilvikum. 

Til að brúa þetta mikla bil milli kynjanna hafa fátækar konur frá Kambódíu, Laos, Búrma og Víetnam verið seldar sem brúðir til Kína á hverju ári. Sumar fara þangað af fúsum vilja en aðrar eru blekktar til fararinnar eða neyddar til hennar.

Ein konan segir í viðtali við skýrsluhöfunda að hún hafi …
Ein konan segir í viðtali við skýrsluhöfunda að hún hafi þrisvar sinnum verið flutt mansali til Kína. AFP

Hin nýja rannsókn, sem gerð er af John Hopkins Bloomberg-skólanum, er sú fyrsta sinnar tegundar. Samkvæmt henni hafa 7.500 konur frá tveimur héruðum í norðurhluta Búrma verið fluttar til Kína og þvingaðar í hjónaband.

Rannsóknin er m.a. byggð á viðtölum við fjölda fólks sem hefur sloppið úr ánauðinni og snúið aftur til Búrma. Samkvæmt niðurstöðum hennar er meirihluti kvennanna einnig þvingaður til að ganga með börn fyrir eiginmenn sína.

Konur yfirgefa Búrma vegna átaka og fátæktar segir W. Courtland Robinson, aðalhöfundur skýrslunnar. Í Kína er spurn eftir eiginkonum mikil vegna kynjaójafnvægisins sem þar er.

Ein konan segir í viðtali við skýrsluhöfunda að hún hafi þrisvar sinnum verið flutt mansali til Kína og í hvert skipti hafi verið þrýst á hana að eignast barn. 

Ráðahagurinn er oft ákveðinn og um hann samið af fjölskyldum kvennanna eða leiðtogum þorpanna sem þær búa í. Þar sem konurnar eru lágt settar félagslega geta þær ekki streist á móti. Foreldrum er greitt fyrir konurnar eða leiðtogum þorpanna. Eftir því sem konan er yngri er verðið hærra, allt að 10-15 þúsund dollarar. 

Lau Thi My er víetnömsk kona sem smyglhringur seldi í …
Lau Thi My er víetnömsk kona sem smyglhringur seldi í hjónaband í Kína. Fátækar konur frá Kambódíu, Laos, Búrma og Víetnam eru seldar sem brúðir til Kína á hverju ári. Sumar fara þangað af fúsum vilja en aðrar eru blekktar til fararinnar eða neyddar til hennar. AFP

Í Kína bíða þeirra karlmenn sem eru oft aldraðir, veikir eða fatlaðir, karlar sem kínverskar konur hafa hafnað. Búrmísku konurnar eru í erfiðri stöðu lagalega séð í Kína. 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru konur oft „ráðnar“ í það að eiga börn með kínverskum eiginmönnum sínum. Þær eru síðan jafnvel seldar til annarra karla í kjölfarið.

Sumar konurnar eiga í farsælum hjónaböndum í Kína. En skýrsluhöfundar benda á að í öllum tilvikum eigi þær að hafa val um hvort þær fari þangað og hverjum þær giftist.

Í Kachin- og Shan-héraði í Búrma, þaðan sem flestar konurnar koma, geisa átök. Þúsundir kvenna eru því á vergangi á svæðinu. Stjórnvöld í landinu hvött til að vinna að friði á svæðinu og þjálfa opinbera starfsmenn í réttindamálum kvenna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert